05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

47. mál, tollalög

Ólafur Proppé:

Jeg stend upp, ekki vegna þess, að jeg taki ekki í sama streng og háttv. þm. Str. (M. P.), heldur til að undirstrika það enn betur.

Það undrar mig mjög, með hvað miklum hraða á að flýta þessu frv. gegnum deildina. Jeg varð ekki svo lítið hissa í gærkveldi, þegar jeg sá, að frv. þetta átti að koma til 3. umr. í dag. Vegna veikinda gat jeg ekki verið við 2. umr. frv. En af brtt. og atkvgr., sem fram fór, mun mega ráða, hvernig deildin fari með frv. Jeg vildi því að eins gera stutta athugasemd. út af ástæðum þeim, sem færðar eru fyrir frv.

Það er þá fyrst, að greinargerð stjórnarinnar fyrir frv. er ekki æðilöng; hún getur ekki verið styttri. Aðalástæðan, sem frv. er talin til gildis, er verðfall peninga, og það er líka eina ástæðan. Ef þetta frv. hefði komið fram á þingunum l917–18,eða jafnvel 1919, þá hefði þetta mátt til sanns vegar færa, og greinargerðin því verið rjett. En jeg efast um, að nú sje hægt að telja hana rjettmæta. Dýrtíðin hefir nú náð hámarki sínu, og mun því ekki hjeðan af vera að tala um verðhækkun á vörum, heldur verðlækkun eða verðhækkun á peningum.

Jeg vil því segja, að þessi ástæða stjórnarinnar komi ekki til greina, og tel því að frv. komi eftir dúk og disk.

Jeg vildi svo leyfa mjer að minnast dálítið á einstakar greinar frv. (Forseti: Jeg vil minna háttv. þingmann á, að þetta er 3. umr., og haga sjer eftir því). Jeg var sökum veikinda ekki við, er málið var til 2. umr., og vona, að hæstv. forseti og háttv. deild gefi það til leyfis, að jeg tali um frv. í einstökum atriðum. Það er þá fyrst um tollinn af áfengi, að sú grein gefur beint tilefni til að æskja þess, að frv. sje tekið af dagskrá, þar sem kunnugt mun, að á ferðinni er frv. frá stjórninni um einkasölu á áfengi. Sama er að segja um tollinn á tóbaki. Það er ekki gott að samræma það, að ríkið taki bæði toll og hafi ríkiseinkasölu á þessum vörum. Þessi tvö atriði, út af fyrir sig, ættu að vera nægileg til að fresta málinu. þangað til ráða má um lok frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi.

Þá kem jeg að 2. gr. 2. lið. Það er það atriðið, sem mesta þýðingu hefir, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðarheildina. Það er kaffitollurinn. Jeg vil segja, að jeg vil fara þar í öfuga átt við frv. Eftir frv. á kaffitollurinn að hækka um helming, en jeg vildi snúa því við og afnema kaffitollinn og sykurtollinn alveg. Jeg skal reyna að færa máli mínu nokkra sönnun. Starfsmenn ríkissjóðs taka laun sín á tvennan hátt; í fyrsta lagi föst laun, sem ekki breytast, og í öðru lagi dýrtíðaruppbætur, sem reiknast eftir verðlagi á 10 nauðsynjavörutegundum, er menn ekki geta lifað án. Af þessu leiðir, að því lægra sem verðlagið á þessum vörutegundum er, því lægri verður vísitalan, og því lægri dýrtíðaruppbæturnar.

Jeg hafði ekki tíma til að athuga nákvæmlega, hvort ekki mundi tiltækilegt að sleppa kaffitolli og sykurtolli, með það fyrir augum, að vísitalan lækkaði það mikið, að um verulegan sparnað yrði að ræða. Þess ber að gæta, að laun annara en starfsmanna ríkissjóðs eru einnig reiknuð eftir þessari vísitölu; það eru laun starfsmanna kaupstaðanna (Reykjavíkur, Akureyrar, Ísafjarðar og Seyðisfjarðar) og þar fyrir utan laun verkamanna alment. Með tilliti til þessa alls, væri vert að athuga, hver útkoman yrði og mismunurinn á því, hvað vísitalan hækkaði, ef tollarnir hækka, og hvað hún lækkaði, ef þeir væru afnumdir. Þetta er svo alvarlegt, að vert er að reikna það ítarlegar en jeg hafði tíma til að taka það síðan í gærkveldi.

Og jeg get ekki skilið, að menn verði á móti því að afnema tollana, ef vísitalan lækkar það, að gróði yrði að. Það er líka skylda þings og stjórnar að ganga á undan með að minka dýrtíðina, bæði vegna heilla einstakra og landsins í það heila tekið. Kaffitollurinn og sykurtollurinn urðu síðastliðið ár, ef rjett er tekið eftir skýrslu fjrh. (M. G.), 420 þús. kr. (Fjrh.: 535 þús.). Samkvæmt hinni prentuðu ræðu fjrh. (M. G) var hann áætlaður 525 þús. kr., en reyndist 420 þús. Enda má sjá það hjer, af aths. stjórnarinnar, að tekjurnar af öllum tollinum eru áætlaðar tæpar 2 miljónir; þá lætur nærri, að tollurinn af kaffi og sykri mundi verða 460 þús. kr. af því, þegar tekið er tillit til hækkunarinnar.

Svo er það annað, sem jeg vildi leyfa mjer að minnast á, í sambandi við þetta. Það er aðferðin við útreikninginn á vísitölunni. Hún er nú reiknuð út í október og látin gilda í heilt ár. Þetta er óheppilegt. Það er þegar komið á daginn, að verðfall hefir orðið mikið síðan síðasta vísitala var útreiknuð. Verðfallið í janúar einum hefir numið 18%, og ef lækkunin verður nokkuð lík áfram, mun hún um árslok orðin 70–80%. Það er svo stórkostleg lækkun, að jeg vildi skjóta því til háttv. deildar og háttv. nefndar, hvort ekki mundi ástæða til fyrir þingið að setja lög um það, að núverandi vísitala gildi að eins til júníloka, eða hálft árið, en yrði svo þaðan í frá reiknuð mánaðarlega. Efast jeg ekki um, að þá mundi sparast meira en það, sem kaffi- og sykurtollinum nemur. Vona jeg, að háttv. fjhn. taki þetta til ítarlegrar athugunar, og gefi síðan greinilega skýrslu um niðurstöðuna.