05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

47. mál, tollalög

Magnús Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs vegna þess, að mjer þykir einkennilegur sá andróður, sem komið hefir hjer í deildinni gegn því, að þessu máli verði ekki hraðað. Annars get jeg verið fáorður, því að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) drap á ýmsar þær ástæður fyrir því, að 3. umr. þessa máls yrði frestað, sem fyrir mjer vaka.

Jeg mintist á það þegar við 2. umr. þessa máls, að erfitt væri að taka afstöðu til ýmsra liða þessa frv., sem hjer liggur fyrir, á meðan ekki væri útsjeð um forlög annars frv. hjer í deildinni, sem væri þessu svo náskylt, að samþykt eða höfnun annars hlyti að hafa áhrif á hitt. Jeg á við einkasölufrv. á tóbaki og víni. Jeg vil þess vegna leggja mjög sterklega mitt lið þeirri till., er komið hefir fram hjer í deildinni, um að máli þessu verði frestað. Jeg ljet mjer nægja þá von, að frv. þetta yrði mjög lengi á siglingu hjer í deildinni, en sú von mín hefir nú algerlega brugðist, og það hlýtur að ráða minni afstöðu í þessu máli. Jeg skal hjer ekkert fara að deila við háttv. frsm. (J. A .J.) um tóbakstollinn í sjálfu sjer. Þar geta verið skiftar skoðanir. Jeg hefi áður sagt, að full ástæða væri til þess, að ríkissjóður fengi tekjur þær, sem áætlað er að fáist af einkasölu á tóbaki, og jeg hefi líka sagt, að þær ættu að fást einmitt af tóbaki, þó að jeg vilji fara þá leið að ná þeim með tolli einum, og er því þar alveg sammála hv. frsm. (J. A. J.) í aðalatriðinu. En jeg veit, að þótt háttv. frsm. (J. A. J.) sje fyrir sitt leyti alveg sannfærður og hafi tekið ákveðna afstöðu til frv. þessa, þá er hann svo sanngjarn, að hann vill unna öðrum þm. tækifæris til þess að geta líka tekið ákveðna afstöðu, og verður því ekki meinsmaður þeirra í því, að frv. verði tekið út af dagskrá.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að vjer, sem værum óánægðir, hefðum getað komið fram með brtt., sem hafa mætti sem prófstein á álit deildarinnar. Jeg er að vísu óþingvanur, en jeg fæ þó ekki betur sjeð en að þetta sje skrítin starfsaðferð. Deildin getur ekki, enn sem komið er, tekið ákveðna afstöðu til þessa frv. Fjhn. sjálf hefir ekki einu sinni getað það. Deildin hefði því alls ekki getað drepið brtt, nema með því að gera alla meðferð málsins á þingi, nefndarálit, umræður og slíkt, óþarft, með því að láta í ljós skoðun sína fyrirfram. Auk þess væri það alls enginn prófsteinn á álit deildarinnar í þessu máli. Það verður ekki gott að ákveða, hvað sje tollur og hvað kaupmannságóði, og þeir, sem eru með kaupmannságóðanum, geta alveg eins samþykt hækkun tollsins, því að einu gildir, ef taka skal bæði toll og kaupmannságóða, hve mikið af því er kallað þessu nafninu og hve mikið hinu. Nú er enginn vegur að vita um, hver forlög hins frv. verða, og á meðan svo er, get jeg ekki tekið ákveðna afstöðu til þessa frv. Jeg skil alls ekki, hvað valdið getur þessari mótstöðu. Og jeg get ekki fallist á till. hæstv. fjrh. (M. G.), að fresta málinu um 3–4 daga. Frestunina verður að miða við þann undirbúning, sem þarf til þess að geta tekið ákveðna afstöðu til frv., en ekki við neitt tímatakmark, gripið úr lausu lofti. Jeg vil, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), fresta málinu, uns frv. um einkasölu á víni hefir verið til 2. umr. Mjer finst það vera óbilgirni hjá þeim, er eigi vilja ganga inn á frestunina, auk þess sem þeir með því gætu stofnað frv. í hættu.