05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

47. mál, tollalög

Jakob Möller:

Jeg finn ekki ástæðu til að lengja umræður um þetta mál, en verð þó að segja nokkur orð. Við síðustu umræðu þessa máls talaði jeg svo, að jeg gæti ekki fallist á það, að bráðnauðsynlegt væri að fresta þessu máli, en hins vegar vil jeg þó ekki leggja á móti því. í fjhn. vakti jeg athygli á sambandi þessa frv. og einkasölufrv. á tóbaki og víni, en það fekk lítinn byr í nefndinni, og jeg gerði það ekki að neinu kappsmáli þar. Jeg fæ ekki sjeð, að ekki megi hafa áhrif á þetta frv., þótt það fari út úr deildinni. Stjórnin mun þó að minsta kosti ávalt geta haft augu með málinu, eins þegar það er komið til Ed., og það er fyrst og fremst hennar áhugamál að bæta upp þann tekjumissi, sem verða mundi við fall einkasölufrv. Annars er ekki rjett að skoða þetta frv. sem nokkurskonar áburðarklár, sem á megi leggja alt það, sem vanta kann á, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi fyrir útgjöldum. Þótt jeg vilji hækka kaffitollinn, eins og frv. fer fram á, þá er alls ekki sagt, að jeg vilji hækka hann upp í það óendanlega.

Jeg þarf svo ekki að tala frekar um þetta mál. Jeg mæli með frestuninni, en annars er það auðvitað alveg á valdi forseta að taka málið af dagskrá.