15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að jeg hafi sjeð nýlega í blaði hjer í bænum, að verið var að hlakka yfir þeirri meðferð, sem frv. stjórnarinnar sættu hjer á þingi. Sem átyllu til þessara ummæla notar blaðið það, að kornvörufrv. stjórnarinnar var afgreitt með dagskrá frá Ed. Þetta frv. átti þá að sæta sömu meðferð, eftir sögn og ósk blaðsins.

Nú getur stjórnin ómögulega tekið það nærri sjer, þótt frv. yrði felt eða vísað frá með dagskrá, eftir tillögu nefndarinnar, því að tillaga nefndarinnar byggist ekki á því, að henni líki ekki frv., heldur eru það einungis fjárhagsástæðurnar sem stendur, er hún ber fyrir sig. Málið stendur að öðru leyti svo af sjer, að það er beint heimskulegt að telja það lýsa nokkru um afstöðu þings til stjórnar, hvernig fer um frv. Á það mun jeg benda síðar.

Að því, er snertir komvörufrv., þá var stjórnin alls ekki óánægð með afdrif þess; telur miklu fremur, að hv. Ed. hafi farið þar hyggilega leið, sem ekkert getur verið við að athuga frá stjórnarinnar hálfu.

Um þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er þess að geta, að stjórnin getur alls ekki talið það sitt frv. fremur en frv. þingsins sjálfs. Það vill sem sje svo merkilega til, að þessi háttv. deild lagði fyrir stjórnina, ekki að semja þetta frv., heldur að skipa nefnd, sem síðan skyldi gera till. um málið, er stjórnin skyldi síðan leggja fyrir þingið. Ef því þingið vill hafa einhvern fyrir sök, þá hittir það sjálft sig fyrir — það á hjer sök við sjálft sig. Hvernig þingið vill fara með þetta mál sitt, liggur stjórninni í ljettu rúmi, að því leyti, en stjórnin hefir fallist á frv. fyrir sitt leyti, og telur það gott. Að þessu leyti tel jeg illa farið, ef það nær ekki fram að ganga sem fyrst.

Það er annars farið að tíðkast nokkuð mikið, að hið háa Alþingi heimtar að lögð sjeu frv. fyrir það, en biður svo um annað þegar þau koma. Það er leitt að verða að segja það, en það er ekki ósvipað keipóttum krakka, sem sífelt heimtar leikföng, en fleygir þeim frá sjer jafnóðum og hann fær þau. Um þetta mætti nefna mörg dæmi frá síðustu árum.

Jeg skal þó viðurkenna, að ástæður háttv. allsherjarnefndar fyrir frestun á framkvæmdum í þessu efni eru á nokkru byggðar. En það ætti að láta málið ganga fram engu að síður. Það mætti setja í frv. ákvæði um, að það skyldi ekki koma til framkvæmda fyr en eftir ákveðinn tíma, eða eitthvað í þessa átt. Með því væri komist hjá að leggja frv. fyrir annað þing, að gagnslausu, og þá gætu deildirnar verið búnar að athuga frv. til hlítar.

En jeg vil benda á það, að það fylgir mikill kostnaður þessari sífeldu uppprentun á frv. í þingtíðindunum, og allri meðferð þeirra á þingi ár eftir ár, án þess að þeim sje komið fram. Jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki sje rjettara, að þessu athuguðu, að láta frv. ganga fram nú þegar.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, skil jeg vel afstöðu nefndarinnar, og viðurkenni, að hjer eru sjerstakar ástæður fyrir hendi. En í flestum slíkum tilfellum hefir þingið enga afsökun. Á þjóðþingum annara landa eru stjórnarfrv. venjulega látin ganga fyrir frv. einstakra manna. Hjer er einatt farið aftan að siðunum. Fyrst er starfað að frv. einstakra manna, en frv. stjórnarinnar látin mæta afgangi. Jeg vona að hið háa Alþingi misvirði ekki við mig, þó að jeg kalli þetta hreinan ósið.

Jeg er þakklátur háttv. nefnd fyrir dóm hennar um frv., að hún fellst á það í öllum aðalatriðum. Auðvitað þarf jeg ekki að þakka fyrir sjálfan mig, því að jeg á ekkert í frv. En mjer þykir vænt um, að skoðun hennar kemur fyllilega heim við mína skoðun.

Jeg tek undir það með háttv. frsm. (B. H.), að eftirleitun um skoðun sýslu- og bæjarstjórna getur ekki haft neinar verulegar bætur í för með sjer. En ef þær eru spurðar, þá ætti það að vera sjerstaklega um nýmælið um framfærsluhjeraðið. Sjeu háttv. þm. sammála um, að frv. sje rjett, þá skil jeg ekki, að sá dómur ætti að breytast, þó að einhverjar sýslunefndir eða bæjarstjórnir ljetu aðra skoðun í ljós. Slík skírskotun er því hreinasti óþarfi. En ef fjárhagur landsins leyfir ekki, að reynt sje að vernda börn þjóðarinnar fyrir berklum, eftir mætti, þá má hann vera bágur. Annars get jeg vísað til háttv. þm. Str. (M. P.), sem tekur næst til máls.