15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi nú raunar litlu að svara háttv. frsm. (B. H.), því að hann hefir ekki í neinu hrakið orð mín, en af því að jeg gleymdi einu atriði áðan, þá þykir mjer rjett að standa upp aftur. Jeg gleymdi að spyrja háttv. allshn., hvað hún ætlaði að gera við hin frv., fylgifiska þessa frv., sem hjer liggur fyrir til umræðu. Jeg hafði búist við, að úr því nefndin valdi nú dagskrárleiðina til að losa sig við frv., að hún sæi þá um útför hinna frv. líka og holaði þeim niður í sömu gröfina. Að minsta kosti var það ætlun mín, að öll þessi frv. fylgdust að, og jeg get sagt það hjer, fyrir hönd formanns berklaveikisnefndarinnar, að hann ætlaðist til hins sama.

En það er eitt, sem jeg vildi benda hv. þingdm. á, og það er það, að frv. þetta, sem hjer er um að ræða, er nokkurskonar uppeldisfræði handa þjóðinni, og þó að frv. geti ef til vill ekki að öllu leyti komið strax til framkvæmda, þá getur það þó frá heilsufræðilegu sjónarmiði haft mikil áhrif til hins betra, að frv. verði að lögum.

Svo voru það sparnaðarmennirnir. Það var eins og kæmi við hjartað í háttv. frsm. (B. H.) þegar jeg mintist á þá. En jeg skilgreindi, við hvað jeg átti, er jeg sagði, að þessir menn væru að setja landið á hausinn, og jeg skal endurtaka það. Jeg sagði, að þeir menn, sem altaf eru að klípa af og bíta utan úr fjárframlögum til þjóðnytjafyrirtœkja, sem efla þjóðarauðinn og auka starfsþrek og gjaldþol þjóðarinnar, það eru mennirnir, sem setja landið á hausinn. Og jeg treysti því, að mín þingmenskusaga gefi engum ástæðu til að skipa mjer í þeirra flokk, og að fjármálapólitík mín reynist þyngri á metunum til þjóðþrifa heldur en þeirra sparnaðarmanna, sem jeg nú lýsti og háttv. frsm. (B. H.) tekur svo sárt til.

Jeg skal nú nefna dálítið grófgert dæmi, til þess að benda háttv. deild á sparnaðinn, sem þessi frestur getur haft, og dagskráin ætlast til að sje um óákveðinn tíma. Og þá sný jeg máli mínu til háttv. frsm. (B. H.) og spyr hann: Ef svo væri, eins og átt hefir sjer stað endur fyrir löngu, og þó oftar en einu sinni, að Tyrkir gengju á land og dræpu, við skulum segja 150 menn á ári, og hneptu helmingi fleiri í þrældóm um lengri eða skemri tíma, ætli þessari háttv. þingdeild fyndist þá ekki verða að gera tilraun til þess að bjarga einhverju af þessu fólki, þótt fjárhagurinn væri örðugur, án þess að fá leyfi sýslunefnda til þess áður? Þó að dæmi þetta þyki kannske langsótt, þá stendur þó alveg eins á hjer. Berklaveikin verður 150 mönnum að bana á ári hverju, og frv. það, sem hjer liggur fyrir, fer fram á það, að gera tilraun til þess að bjarga einhverju af því fólki, sem vágestur þessi sækir heim. Því verður aldrei komið inn í mitt höfuð, að ekki eigi þegar að hefjast handa í þessu efni. Það hefir dregist altof, altof lengi, að nokkuð verulegt væri aðhafst í máli þessu til bjargráða þjóðinni. Þess vegna get jeg ekki fallist á það, sem háttv. frsm. (B.H.) sagði, að með því að samþ. frv. sem lög frá Alþingi væri verið að afgreiða málið út í bláinn.

Háttv. frsm. (B. H.) hefir víst misheyrst, er hann hjelt því fram, að jeg vildi taka málið frá deildinni. Það sagði jeg ekki, en jeg taldi það kurteisisskyldu gagnvart Ed., að lofa henni að hafa þetta mál til athugunar, og ekki síst vegna þeirra mörgu lækna, sem eiga sæti þar. Enda veit jeg, að málið mundi horfa öðruvísi við nú, hefði frv. verið upphaflega borið fram í þeirri deild.

Fleira var það ekki, sem hv. frsm.(B.H.) tók fram, og eiginlega ekkert í seinni ræðu hans, sem jeg þurfti að svara, enda ekki hægt að færa rök fyrir þessari aðferð, sem háttv. allshn. beitir í þessu máli.

En af því að háttv. frsm. (B. H.) á eftir að standa yfir moldum mínum, vona jeg, að hann láti mig vita, hvað nefndin hefir hugsað sjer að gera með hin frv.