15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. þm. Str. (M. P.) hefir tvisvar staðið upp og sagt, að frv. þetta hefði átt fyrst að berast fram í Ed. En þar er jeg á gagnstæðri skoðun, enda er það samkvæmt gamalli og fastri þingvenju, að jeg einmitt lagði frv. fyrir þessa deild, því að hjer í deildinni á sæti einn af þeim mönnum, sem samið hafa frv., sem sje háttv. þm. Str. (M. P.), og því sjálfsagt að veita honum tækifæri til að fylgjast með frv. hjer í þinginu frá upphafi. Þess vegna er þessi aðfinsla háttv. þm. Str. (M. P.) ekki á neinum rökum bygð. Hefði öðruvísi staðið á, get jeg fallist á, að rjettara hefði verið að Ed. hefði fengið það fyrst til athugunar, en eins og jeg benti á, var það sjálfsögð kurteisisskylda gagnvart háttv. þm. (M. P.) að bera það fram hjer. Og mjer er nær að halda, að ekki sje hægt að benda á eitt einasta tilfelli, þar sem þessari þingvenju hefir ekki verið fylgt, þegar líkt hefir staðið á.