15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Björn Hallsson):

Það eru aðeins örfá orð til háttv. þm. Str. (M. P.), eins og vænta mátti. Jeg ætla þá að byrja á endanum, og svara því, sem hann spurði um.

Nefndin leit svo á, að ef dagskráin næði fram að ganga, þá hlytu fylgifrv. að verða aðalfrv. samferða, því að, eins og landlæknir benti á, var nefndin sammála um það, að öll þessi frv. ættu að fylgjast að, eða hin, í það minsta, alls ekki að ganga á undan þessu.

Jeg ætla ekki að svara því miklu, hvað við mundum gera, ef Tyrkir færu að herja á landið og drepa mannfólkið. Get þó búist við, að okkur færi líkt og þegar Jörundur hundadagakonungur kom hingað, sællar minningar. Hversu voldugar voru ráðstafanir okkar þá?

Annars er þetta Tyrkjadæmi háttv. þm. Str. (M. P.) ekki fimlega framsett, eða hliðstætt vörnum gegn berklaveiki. Hervarnir höfum við engar nú, til þess að verjast Tyrkjum, og þyrftum því þar að byrja á upphafinu, mynda her. Hins vegar eru þegar gerðar ýmsar ráðstafanir og sett lög um varnir gegn berklaveiki. Hjer er því aðeins að ræða um frekari ráðstafanir gegn veikinni.