15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Bjarni Jónsson:

Ef frv. þessu verður nú slátrað hjer í deildinni, frv., sem ágæt nefnd hefir samið af allri vandvirkni, og stjórnin hefir nú fram borið, þá held jeg að frægðarorð þessa þings muni berast víða.

Þykir mjer það undarlegt af allshn. að leggjast á móti því, að þetta frv. sje samþykt, en koma þó ekki fram með neinar brtt. við frv., og má af því draga það, að nefndin hafi fallist á frv. óbreytt, enda hefir hún og sjálf gefið það í skyn.

Úr því að allshn. hefir fallist á frv. þetta og úr því að þetta mál er hið allra mesta þarfamál, sem ekki þolir bið, þá sýnist mjer sjálfsagt, að vjer fellum nú dagskrána og samþykkjum frv.

Þótt rjett muni hafa verið af hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að bera frv. fram hjer í deildinni, af kurteisi við háttv. þm. Str. (M. P.), þá er hitt ekki rjett af Nd., að kyrkja hjer frv. og lofa því ekki að koma til Ed. Slíkt ætti þó ekki að verða til skaða, því að þar eru þó 4 læknar, er allir ættu að hafa rjett til að greiða atkvæði um málið og ræða það. Þeir ættu þó varla að hafa minna vit á þessum málum en sumir háttv. deildarmenn hjer. Jeg hygg því, að það yrði ekki talin nein goðgá, þótt deildin Ijeti ekki þetta ágæta frv. vera fyrstu lögin, sem hún slátraði hjer á þessu þingi.