15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg get ekki stilt mig um að segja fáein orð, vegna þess, að jeg heyri, að sumir þm. líta svo á, að með því að samþ. þetta frv. sje bót ráðin á berklaveikinni, og því megi telja það hermdarverk að samþ. ekki frv. nú. En þessu er ekki þannig varið. Það er ekki ráðin bót á berklaveikinni hjer, þótt frv. verði að lögum nú á þessu þingi, því eins og nú er ástatt, er ómögulegt að koma ákvæðum þess í framkvæmd, þeim ákvæðum, sem einhver veigur er í og ætla mætti, að bæru einhvern árangur. Til þess að lögin nái tilgangi sínum, þarf að koma upp sjúkraskýlum og sumarhælum fyrir börn. En slíkt er ekki hægt að framkvæma á þessu eða næsta ári.

Það, sem vakti fyrir nefndinni, var það, að ekki mundi verða mikið úr slíkum framkvæmdum á næstu tveim árum, og hv. þm. Str. (M. P.) viðurkennir þetta, eða að minsta kosti gerði hann það þegar hann átti tal við nefndina, þó að hann sje nú svo blindaður af ofurkappi í málinu, að hann vill lítið eða ekkert gera úr örðugleikunum. Það væri ekki hægt að framkvæma slík lög á næstu árum, og því væri ekki eins mikið í húfi þótt samþykt frv. biði.

Það eru til lög um varnir gegn berklaveiki, en hvernig hefir þeim verið framfylgt? Og af hverju hefir ekki verið hægt að framfylgja þeim? Það vantar sjúkrahús fyrir þetta berklaveika fólk. Heilsuhælið á Vífilsstöðum er yfirfult. Það má því segja, að það sje að byrja á neglunni að lengja þessi lög á pappírnum og gera hærri kröfur, þegar þau skilyrði eru ekki fyrir hendi, sem alt byggist á, það er að geta einangrað sjúklingana og veitt þeim nauðsynlega hjúkrun. En til þess þarf að koma upp sjúkraskýlum og barnahælum. Það þýðir ekkert að skipa fyrir um það í lögunum, að sjúklingarnir skuli tafarlaust teknir burt af heimilunum, þegar hvergi er hægt að koma þeim fyrir. Líklega er þó ekki meiningin að reka þá út á gaddinn. Meðan bót er ekki ráðin á þessu, verða þessi lög — og því meir, sem þau krefjast meira — pappírsgagn eða lítið annað, og það er nóg af slíku.

Hitt sá og nefndin, að þótt milliþinganefndin sje skipuð góðum mönnum og hafi haft málið heilt ár með höndum, þá sje þó ekki loku fyrir það skotið, með því að skjóta málinu til þjóðarinnar, að hún geti komið fram með góðar og skynsamlegar bendingar um þá hlið málsins, er að framkvæmdunum lýtur. Það er enginn vansi fyrir milliþinganefndina, þó svo reyndist, en stórmikið unnið fyrir málið.

Jeg mótmæli því algerlega sem staðlausum stöfum, að ekkert geti við það unnist að gefa þjóðinni tækifæri á að athuga málið og gera við það sínar athugasemdir. Og mjer þykir þeir menn tala með miklum rembingi og gorgeir, og með helst til lítilli virðingu um þjóðina, sem neita því, að þaðan geti góðar bendingar komið. Kostnaðarhlið málsins er verulegt atriði; það er því engin goðgá, þó að þeim, sem bera eiga kostnaðinn, gefist færi á að athuga málið frá þeirri hlið. Sýslunefndir þurfa að fá tækifæri til þess að sjá leið til þess að jafna niður þessum mikla gjaldauka, sem af framkvæmd þessara laga leiðir, þegar til framkvæmda kemur. Þær þurfa því að hafa tímann fyrir sjer.

Mjer þykir því sýnt, að þó að frv. verði hjer samþ. nú, þá verði þó lítið eða ekkert um framkvæmdir á því, sem máli skiftir, í bráð. En hins vegar er jeg ekki í vafa um það, að málið muni við það, að þjóðinni gæfist færi á að athuga það.

Þótt hæstv. forsrh. (J. M.) vaxi sá kostnaður í augum, sem af því mundi leiða að leggja þetta frv. aftur fyrir næsta þing, þá hygg jeg, að sá kostnaður yrði ekki minni, þótt að því yrði flasað hjer á þinginu að gera frv. að lögum — lögum, sem breyta þyrfti ef til vill strax og til framkvæmdanna kæmi, af því, að sú hlið málsins hefði ekki verið nægilega athuguð.

Nei, það sem mest er undir komið, er það, að lögin sjeu þannig úr garði gerð, að hægt sje að framkvæma þau, því undir framkvæmdum er alt komið. Berklaveikin verður ekki kveðin niður hjer með því einu að fjölga lagagreinum um þetta efni. Aðalatriðið er það, að hafist verði handa á skynsamlegan hátt gegn berklaveikinni. Þess vegna mun rjett að flasa ekki að neinu og leita ráða til þjóðarinnar sjálfrar gegn þessum óvini. Og jeg er viss um, að á því mundi málið græða, en ekki tapa.

Annars hefir frsm. allshn. (B. H.) haldið uppi vörnum fyrir nefndina, og þarf jeg þar ekki við að bæta.

Háttv. þm. Str. (M. P.) notaði þetta tækifæri til þess að kveða upp þann dóm, að það væru sparnaðarmennirnir á þingi, sem færu með landið á höfuðið.

Jeg þykist nú líka hafa rjett til þess, eins og þingmaðurinn, að kveða upp dóm um þetta atriði, og minn dómur verður þá á þá leið, að ef sparnaðarmannanna hefði ekki notið við á þingi að undanförnu, þó að þeirra áhrifa hafi ekki gætt sem skyldi, því væru eyðslumennirnir í þinginu búnir að fara með landið á höfuðið.