20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Sigurður Stefánsson:

Þm. Str. (M. P.) sagði, að jeg hefði kallað frv. heimskt. Nei, svo heimskulega komst jeg ekki að orði, því að það er ómögulegt að kalla frv. eða aðra dauða hluti heimska. En hitt sagði jeg, að hafi nefndin ætlað að sækja sjer útlent vit, þá hafi hún komið heim ennþá heimskari en hún fór. Og orð hans styrktu þessa skoðun mína, þar sem hann sagði þessi lög sniðin eftir útlendum lögum. Já, þar liggur það, þau eru sniðin eftir lögum í landi, þar sem öll þau skilyrði eru fyrir hendi, sem eru nauðsynlegur grundvöllur fyrir framkvæmd þessa frv. En nefndin hefir gleymt því, að þau skilyrði eru ekki til hjer. Þetta frv. verður ekki annað en pappírsgagn, á meðan vanta aðalskilyrðin til þess að hjálpa þessum aumingjum, svo sem næg sjúkrahús o. fl. Þetta þarf fyrst, en til þess þarf ekki berklaveikisfrv. Í þessu frv. er mest komið undir hjeraðslæknunum, en jeg hygg, að jeg beri hjeraðslækna ekki röngum sökum. þótt jeg segi, að þeir hafi fylgt mjög slælega fram þeim berklaveikislögum, sem til eru. Jeg býst þess vegna heldur ekki við, að mikils sje að vænta úr þeirri átt eftirleiðis. meðan flest skilyrði vantar til þess að þeir geti framfylgt lögunum.