20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Sveinn Ólafsson:

Jeg kann ekki við annað en að gera grein fyrir atkvæði mínu; það hafa fleiri þm. gert. Jeg treysti mjer ekki til að greiða atkv. með frv. þessu, og kannast jeg þó við góðan tilgang, sem að baki því liggur. En jeg álít, að ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, verði svo erfiðar í framkvæmd, að ekki verði við ráðið, nema þá í þorpum og þjettbýli. Jeg held því betra að bíða, og leita þá að skipulagi, sem betur hentar almenningi og betur á við landsháttu hjer. Frsm. (B. H.) sagði, að frv. væri sniðið eftir útlendum lögum, sem að þessu efni lúta. Jeg efast nú ekki um, að þetta sje rjett, og að líkt skipulag geti átt við í nágrannalöndunum, en þar finnum vjer hvergi þá landsháttu, sem hjer eru, hvergi annað eins strjálbýli, vegaleysi og erfiðleika um samgöngur, nema ef vera skyldi nyrst á Finnlandi og Lapplandi. Þá er kostnaðarhlið þessa máls mjög lítið rannsökuð. Vjer sjáum að eins hilla undir stórupphæðir, en vitum ekki með neinni vissu, hve háar þær verða, jafnvel ekki hvort hjeruðin hafa nokkur tök á að greiða þær. Og jeg skal taka það fram„ að jeg held, að ekki sje svo mikil hætta á ferðum eins og gefið er í skyn af meðhaldsmönnum frv. Jeg álít, að miklu megi til leiðar koma um varnir við berklaveiki með ötulu atfylgi lækna og hjeraðsstjórna, sem nú á síðustu árum hafa fengið mikinn áhuga á þessu máli, og víða hafa vakandi auga á því. Það er ólíkt, hversu miklu meiri alvörugefni ríkir nú hjá sveitarstjórnum í þessu efni í en áður var, enda hefir skilningur almennings á hættunni og vörnum gegn henni aukist mjög síðari árin, og það er allra öruggasta vörnin.

En aðalatriðið er þetta, að jeg hygg, að finna megi betri ráð til að samrýma tilgang frv. við staðháttu hjer en fundin eru, og vil því að framkvæmdum sje frestað og þeirra ráða leitað betur.