20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Pjetursson:

Það eru nú alveg ný mótmæli, að frv. sje illa úr garði gert. Á það hefir hv. allshn. alls ekki minst, nje aðrir, sem gegn frv. hafa talað. Það hefði verið betra, ef háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefði getað stunið þessu upp úr sjer þegar við 2. umr., svo að mjer hefði gefist tækifæri til að gefa nákvæm og ítarleg andsvör, og það því fremur sem að í hjeruðum kring um háttv. þm. (Sv. Ó.) er mest berklaveiki á landinu. Jeg hefði því búist við því, að þm. úr þeim hluta landsins væri einna ákafastur í, að hafist væri handa sem fyrst.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að það hilti undir stórar upphæðir, en annars væri enn engin vissa um kostnaðarhlið málsins. Þessar upphæðir eru nefndar með tölum, og jeg hygg, að þær fái staðist, sjeu þær þá ekki jafnvel hærri en þarf.

háttv. þm. (Sv. Ó.) heldur, að ekki sje svo mikil hætta á ferðum, hygg jeg að komi til af því, að hann hafi ekki kynt sjer málið nógu rækilega.

Viðvíkjandi ræðu háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) þá er jeg alveg mótfallinn því að fresta framkvæmdum í málinu til 1. janúar 1923. Það er engin ástæða til að klingja í sífellu um það, að það þurfi að fræða fólkið. Hjer er alls ekki að ræða um það, að demba eigi lögum yfir fólkið, því alveg að óvöru. Mörg fyrirmæli frv. hafa þegar verið framkvæmd, t. d. skólaeftirlit o. fl.

Það er líka undarlegt, að háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) og 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skuli fyrst nú hafa veitt því eftirtekt, að frv. er sniðið eftir útlendum lögum. Þessa er getið í greinargerð fyrir frv. Þeir hafa víst ekki einusinni nent að kynna sjer greinargerðina.

Viðvíkjandi þessu útlenda viti, sem nefndin átti að hafa sótt sjer, þá snertir það mig einan, þar sem jeg var sá eini af nefndarmönnum, sem fór utan. Mjer láðist nú að fá mjer gáfnavottorð, áður en jeg fór utan, og eins eftir að jeg kom heim, svo að jeg get ekki lagt neitt slíkt fram hjer í háttv. deild. Annars held jeg, að það þurfi ekki utanför til þess að verða heimskur, því að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir nú orðið vitgrannari með ári hverju, og er það þó ekki utanfarir sem valda því.

Jeg vil frábiðja mjer þá ásökun, að nefndin hafi ekki tekið til greina öll atriði viðvíkjandi sjúkrahúsum og öðru slíku í útlöndum. Háttv. þm. (S. St.) gat lesið um þetta í nál., en ummæli hans sýna, enn einu sinni, að hann hefir alls ekki kynt sjer málið. Það eru lönd til, sem alls ekki hafa fleiri sjúkrahús hlutfallslega en við. Og það má segja það, að þegar Norðurlönd byrjuðu á þessum ráðstöfunum, þá voru þar hlutfallslega alls ekki fleiri sjúkraskýli en hjá okkur hjer.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja, en jeg skil alls ekki, að menn nú skuli svo mjög fara að fetta fingur út í frv.