20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Björn Hallsson):

Jeg þarf ekki að segja margt nú, jeg hefi lokið mjer af við 2. umr. að mestu. En orð háttv. þm. Str. (M. P.) gáfu mjer tilefni til að standa upp. Háttv. þm. (M. P.) sagði, að flest berklaveikistilfelli

væru úr Norður-Múlasýslu, og þess vegna sæti illa á þm. þaðan að leggjast gegn þessu máli. Þessu er þar til að svara, að veikin er þar að vísu mest áberandi, eftir skýrslu milliþinganefndarinnar, en jafnframt segir nefndin, að hún virðist þar í rjenun nú. Þetta hefir engin áhrif á gerðir okkar Múlsýslinga nú í málinu. Jeg held, að það sje viljandi misskilningur háttv. þm. (M. P.), að við sjeum á móti málinu; við erum eins með því sem hann, en hitt viljum við, að framkvæmdir bíði þar til þær geta komið að notum. En allir eru sammála um, að svo verði ekki, þó að frv. verði samþ. nú. Til hvers er þá að vera að berja það fram? Málið er enn ekki nægilega undirbúið, og þjóðin hefir ekki fengið tækifæri til að láta í ljós álit sitt á því.

Jeg skal játa, að jeg tel skipunina á læknamálinu betri eins og hún var samþ. áður heldur en verið hefði eftir till. milliþinganefndarinnar, og jeg gæti því fylgt þessu máli nú, ef enn væri brtt. og till. háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) samþ. Þær hníga mjög í sömu átt og till. allsherjarnefndar. En hinsvegar vil jeg mótmæla því, að jeg vilji vinna gegn útrýmingu berklaveikinnar, og jeg held, að jeg hafi ekki gefið tilefni til slíkra aðdróttana. En háttv. þm. Str. (M. P.) leyfir sjer ýmsar fullyrðingar, sem hann reynir að nota, máli sínu til stuðnings.