18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta er það af frv., sem konur, kvenfjelög víðsvegar um heim og alþjóðakvenfjelög hafa mestan áhuga á. Það er, að sumu leyti, meiri þörf á því, að þetta mál fái góða úrlausn hjer en annarsstaðar. Að sumu leyti máske minnu úr að bæta hjer en annarsstaðar. Jeg hygg, að blettur sá, sem þótt hefir vera á óskilgetnum börnum, hafi ekki verið eins stór í meðvitund hinnar íslensku þjóðar eins og í meðvitund margra annara þjóða, og munurinn á meðferð og atlæti við óskilgetin börn, í samanburði við hin skilgetnu, hygg jeg, að varla hafi verið eins mikill hjer eins og víða er sagt frá annarsstaðar, að minsta kosti get jeg um það borið, að svo er það þar, sem jeg þekki til. Á hinn bóginn hefir þetta mál meiri þýðingu fyrir oss Íslendinga en flestar aðrar þjóðir, að því leyti, að óskilgetin börn eru tiltölulega fleiri hjer en annarsstaðar. Að þessu leyti er það bert, að misrjetti í þessum efnum kemur harðara niður, er það lendir á tiltölulega fleirum.

Lagamunurinn er nú mikill á skilgetnum og óskilgetnum börnum. Sje barnið skilgetið, fer afstaða þess, meðan það er í ómegð og þar til það fer að ráða sjer sjálft, yfirleitt eftir högum foreldranna beggja. Þeim er skylt að sjá fyrir barninu eins og sjálfum sjer, meðan það er ósjálfráða, og jafnvel þar á eftir.

Aflögufærum börnum skilgetnum er skylt að framfæra þurfandi foreldra. Skilgetin börn erfa foreldra sína, og foreldrar börnin. Foreldrar hafa, yfirleitt, jafna skyldu gagnvart börnunum og jafnan rjett, og barnið sömu skyldur og rjett gagnvart foreldrunum. Afstaða móður gagnvart óskilgetnu barni, og þess gagnvart móðurinni, er yfirleitt hin sama og foreldris gegn skilgetnu barni, og gagnkvæmt.

Faðir óskilgetins barns hefir hins vegar ekki aðrar skyldur gagnvart barninu en að gefa með því, meðan það er á ómaga aldri, og meðgjafarskyldan er einatt í framkvæmdinni ekki látin ná lengra en að hann gefi með því að sínum hluta. Aðrar sjerstakar skyldur hefir faðir óskilgetins barns ekki, og barnið engar skyldur við föður sinn, fremur en óskylda menn; hvorki erfir barnið föður að lögum, nje hann það.

Jeg ætla ekki að fara að tína ástæðurnar til þess, að svo mikill munur er gerður milli skilgetinna og óskilgetinna barna, bæði lagalegur og annars. Sjálfsagt hefir miklu ráðið hjer um, að það hefir þótt styrkja hjónabandið að gera þennan mun hjónabandsbarna og annara. En að konur, að minsta kosti, — og þeim ætti ekki að vera síður ant um hjónabandið en karlmönnum —, líti ekki svo á, að nauðsynlegt eða rjett sje að gera þennan mun skilgetinna og óskilgetinna barna, sýnir best áhugi sá, er þær hafa sýnt í því að reyna að rjetta hlut óskilgetinna barna og mæðra þeirra. Annars hafa og hugir löggjafanna snúist mjög að því, hin síðari árin, að tryggja svo, sem auðið er, kjör óskilgetinna barna og mæðra þeirra, svo sem þarf, barnanna vegna.

Fullkominn jöfnuð með skilgetnum og óskilgetnum börnum er ekki unt að gera, aðallega vegna þess, að foreldrar þeirra búa jafnaðarlega ekki saman. Þess vegna hefir verið horfið að því að gera sem ríkastar skyldur föður óskilgetins barns, að hann leggi svo mikið af mörkum, barninu til handa og móður þess, vegna barnsfarar, að búast megi við, að barnið fái sæmilegt uppeldi. Það er gert í frv. þessu. Auk þess leggur frv. yfirleitt að öðru leyti sömu skyldur á herðar föður óskilgetins barns, og veitir honum sömu rjettindi, sem um skilgetið barn væri að ræða, og hið sama er að segja um skyldur og rjettindi óskilgetins barns að þessu leyti. Þannig er því farið með erfðarjettinn. Hórbörn, sem nú eru talsvert ver sett en önnur börn óskilgetin, eru í þessu frv. gerð jafnrjetthá.

Sjerstök ákvæði frv. stefna öll sjerstaklega að því að tryggja, að umgetið (narkmið náist á sem auðveldastan og tryggastan hátt. Það er leitast við að gera eftirgrenslun eftir faðerni sem auðveldasta, með hliðsjón af því jafnframt, að rjettur karlmanns, er barn er kent, sje eigi fyrir borð borinn. Það er leitast við að vernda sem best rjett óskilgetins barns og barnsmóður, og á hinn bóginn að veita sanngjarnlega barnsföður rjettindi til móts við skyldur. Allsherjarnefnd Ed. 1919 viðurkendi, að efni þessa frv. væri rjettmætt. Sje svo, þá er hjer rjettlætisverk að vinna, sem ekki má dragast, að unnið verði.