30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg mintist á þetta mál í gær, og mæltist þá til þess að háttv. deild tæki því vel og ljeti það ganga fram.

Jeg þarf því ekki að taka það upp, sem jeg sagði um málið í háttv. Ed. Flestum háttv. þm. mun málið kunnugt frá fyrri þingum.

Þetta er eitt af þeim þremur sifjafrv., sem nú eru lögð fyrir þingið í þriðja sinn. Varðar það mestu um þetta frv., að það bætir úr þeim mismun og misrjetti, sem hingað til hefir verið milli skilgetinna og óskilgetinna barna, eftir því sem hægt er undir því þjóðfjelagsskipulagi, sem nú er.

Í háttv. Ed. var þessu frv. ekki breytt í neinu, sem verulegt er. Að vísu var dálítið skertur rjettur föður yfir óskilgetnu barni, en yfirleitt er svo fyrir mælt í þessu frv. annars, að rjettur föðursins sje jafnmikill til barnsins sem föður skilgetins barns, að undanteknum rjetti móðurinnar til að hafa barnið hjá sjer.

Þá er dálítil breyting á orðalagi 1. gr.

Í stjfrv. var neikvæð skýring á því, hvaða börn væru óskilgetin, sú, að öll þau börn væru óskilgetin, sem ekki væru skilgetin; þessu hefir verið breytt í háttv. Ed. í jákvæða skýrgreiningu, en mjer fyrir mitt leyti finst hún ekki vera nógu víðtæk. Ljet jeg þess getið í umræðunum, að jeg mundi skjóta því til nefndar í háttv. Nd., að annaðhvort yrði orðalagi greinarinnar breytt, eða hún feld niður. Frsm. allshn. í háttv. Ed. (Jóh. Jóh.) tók þessu vel, og eru því líkur til samkomulags, þótt gr. yrði breytt. Annars vildi jeg, að frv. þetta yrði samþykt óbreytt hjer í háttv. deild. Jeg held að það sje svo sómasamlega úr garði gert, að það megi ganga fram alveg eins og það er.

Jeg hefi spurt háttv. allshn. Ed. um 3. frv., og mun það líklega koma svo fljótt, að það geti fylgst með hinum frv., og er þá mikil bót ráðin á þessum bálki laganna.