18.02.1921
Neðri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg þykist vita, að ýmsum muni þykja há sú fjárhæð, sem hjer er farið fram á aukafjárveitingu fyrir, og jeg viðurkenni, að svo er, en vil um leið geta þess, að stjórnin á þar á minsta sök, því að langflestar fjárveitingarnar eru annaðhvort beinlínis samþyktar af síðasta þingi eða eru afleiðingar af gerðum þess eða fyrri þinga.

Eins og frv. ber með sjer, eru það tæpar 835.000 kr., sem frv. ræðir um, og er langmestur hluti þessarar fjárhæðar þegar greiddur, og talinn í gjöldum síðastliðins árs. Mjer telst svo til, að það sjeu um 75.000 kr. ógreiddar, sem koma á árið 1921.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta frv. nú, en legg til, að því verði, er þessari umr. er lokið, vísað til fjárveitinganefndar.