31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Stefán Stefánsson:

Mjer kom það ekki á óvart, þótt brtt. á þskj. 163 kæmi fram, og að flutningsmaður hennar legði áherslu á að draga af þeim styrk, sem fjárveitinganefndin samþ. að veita sjúkrahúsinu á Akureyri.

Eins og mönnum er kunnugt og háttv. frsm. (M. P.) tók fram, þá hefir allur kostnaður við það numið 120 þús. kr. Eins og hann sömuleiðis skýrði frá, þá hafa verið veittar 23 þús. kr. í fjárlögunum, og til þess að halda venjulegri stefnu um styrkveitingu til sjúkraskýla, vill hann draga úr því, svo að ekki fari fram úr þá kostnaðar.

Ef hjer væri aðeins um sjúkraskýli að ræða, þá væri það, samkvæmt venjunni, aðeins 1/3 kostnaðar, sem því bæri, og þar af leiðandi rjett, að það fengi ekki nema þessar 17000 kr. í viðbót. En þessi stefna er ekki jafnsanngjörn í báðum tilfellunum, bæði um sjúkraskýli í sveitum og sjúkrahús, sem taka á móti sjúklingum úr heilum landsfjórðungum, og jafnvel enn víðar að. Sjúkraskýli í sveitum eru ekki stærri en svo, að þau nægja aðeins fyrir þann fjölda, sem þarf að leita til þeirra úr viðkomandi hjeruðum.

En reynslan á Akureyri á undanförnum árum hefir sýnt það, að þangað leita sjúklingar tugum saman úr öðrum hjeruðum, og einnig útlendingar, einkum á sumrin. T. d. dvöldu þar síðastliðið ár 71 utanhjeraðssjúklingar í samtals 3620 legudaga, og auk þess 8 utanhjeraðssjúklingar til ljóslækninga, og þurftu þeir að vera talsvert lengi, svo að samtals munu legudagar utanhjeraðssjúklinga hafa verið alt að 4000.

Er nú nokkurt samræmi eða sanngirni í því, að miða styrkinn til þessa sjúkrahúss við það, sem veitt er til sjúkraskýla í sveitum, sem ekki hafa nein slík tæki, aðstöðu eða pláss, til að taka á móti svo mörgum utanhjeraðssjúklingum.

Hvað viðvíkur þeim ljós- og Röntgentækjum, sem fengin hafa verið til hússins, þá hygg jeg, að gjafir til þeirra innkaupa muni hafa numið um 14 þús. kr., og það komi því ekki við, á hvern hátt þessi upphæð hefir náðst, heldur sje eðlilegt, að skoða hana sem framlag frá hjeraðinu, enda er hún talin í þessum 120 þús. kr. kostnaði.

Þegar tekið er tillit til þeirrar læknishjálpar, sem veitt er utanhjeraðsmönnum, og framlaga frá hjeraðsbúum, sem jeg nefndi, — því að þau sýna þó ljóslega áhuga þeirra fyrir því, að sjúkrahússvistin geti borið sem bestan árangur, — þá er sannarlega sanngjarnt að veita 3000 kr. fram yfir þennan 1/3 kostnaðarins, þar sem mikill hluti Norður- og Austurlands nýtur sjúkrahússins. Jeg hygg, að enginn geti talið það til of mikils mælst. Enda hefir sjúkrahússnefndin farið fram á 60 þús. kr. viðbótarstyrk, vegna þess, að hjeraðið treystist ekki til að taka á sig svo mikil fjárútlát, ofan á árlegt rekstrarfje, sem nemur fleiri þúsundum króna.

Áætlunin, sem gerð var áður en byrjað var á verkinu, nam í hæsta lagi 68 þús. kr., en eftir að byrjað var á verkinu, fór vinna og efni langt fram úr því, sem hugsað hafði verið, og kostnaðurinn þar af leiðandi altaf meiri og meiri, þangað til komið var svo langt, að hjeraðið gat enga rönd við reist.

Jeg sje því ekki annað fyrir hendi, ef Alþingi neitar enn svo lítilli viðbót, fram yfir þennan 1/3, sem á að vera sú fasta stefna um framlag ríkissjóðs í sjúkrahúsmálum, og það hvernig sem á stendur, að þá muni það leiða til þess, ásamt öðru, að hækka þurfi legugjald sjúklinga, eða með öðrum orðum, að Alþingi vinni að því að gera sjúklingum ókleift að nota sjúkrahúsið.

Ljós- og Röntgentækin hafa aukið aðsókn að sjúkrahúsinu, bæði af Norðurlandi og víðar að. Það má því búast við, að þeir sjúklingar þurfi mikið pláss og langan tíma á sjúkrahúsinu, og stækkun sjúkrarúmsins því gerð af fylstu þörf. Jeg vona því, að það verði helst enginn annar en háttv. frsm. (M. P.), sem ekki greiðir atkvæði með þessari smávægilegu auknu styrkveitingu.

Jeg verð að segja það, að komi slík mál fyrir sem þetta, um að veita styrk til byggingar stórra sjúkrahúsa, sem nægðu fyrir fjarliggjandi hjeruð, þá mundi jeg ekki svo stefnufastur, að jeg vildi ekki víkja frá þessu þriðjungsframlagi, sem miðað er við styrk til sjúkraskýla til sveita, því að það tel jeg ekkert rjettlæti.