31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Háttv. frsm. fjvn. (M. P.) vjek að því, að brtt. á þskj. 181 kæmu ekki til atkv. við þessa umr. Jeg býst við, að samgmn. verði ekki á móti því, að atkvgr. um þær verði frestað, en mjer finst samt rjett að ræða þær við þessa umr.

Allir landsmenn hafa fundið til þess, hvað samgöngur á sjó hafa verið óhentugar og ófullnægjandi undanfarandi ár. Samgöngur á milli Reykjavíkur og útlanda hafa verið þær einu, sem hafa mátt heita þolanlegar. Mikið af vörum þeim, sem flutt hefir verið til landsins, hefir verið sett á land í Reykjavík, og svo sent þaðan til annara hafna á landinu. Útflutningsvörur hafa verið teknar aðeins á fáum höfnum. Flutningsgjöld hafa því orðið tvö- og þreföld að og frá mörgum höfnum. Skipaútgerðarfjelögin hafa sjeð mestan gróða í því, að láta skipin aðeins koma á allrastærstu og bestu hafnir landsins. Um þarfir landsmanna hafa þau minna hugsað. Þau hafa, eins og eðlilegt er, hugsað mest um sinn hag. Undanfarandi ár hefir ekkert millilandaskip siglt eftir áætlun. Undan því hefir verið mjög kvartað, því að áætlunarlausar ferðir koma vitanlega ekki nándar nærri að eins miklum notum sem áætlunarferðir.

Til strandferðanna hefir miklu verið kostað þessi síðustu ár, en þó hafa þær verið afarófullnægjandi. Sjerstaklega hefir ferðunum fyrir farþega verið illa fyrir komið. Oft hafa t. d. ferðamenn af Austurlandi orðið að bíða hjer í Reykjavík í fleiri vikur, áður en þeir hafa fengið ferð heim til sín, þó að auðvelt hafi verið að komast til útlanda. Og svo þegar ferð hefir fallið, þá hefir hún verið norður um land, sem er miklu lengri og dýrari leið heldur en sunnan um land. Eitt aðalmeinið á sjósamgöngunum hefir verið skipulagsleysið, ekkert samræmi á milli millilandaferða, strandferða og flóabátaferða.

Á þessu ári verður ekki hægt að ráða bót á þessu meini. En vitanlega verður þingið að hafa það hugfast, að þetta má ekki lengi við svo búið standa. Það verður að koma föstu skipulagi á allar skipaferðir vorar. Það verður eftir föngum að sjá um, að ekki leggist margfalt flutningsgjald á aðfluttar og útfluttar vörur. Það verður líka, áður en langt um líður, að koma strandferðunum í það horf, að ferðir milli landshlutanna verði svo örar, að menn þurfi ekki að eyða löngum tíma til að bíða eftir skipum, þó að það, ef til vill, verði langt að bíða þess, að ferðir verði svo örar, að á fárra daga millibili geti menn farið hvert á land, sem þeir vilja. Þetta er samgmn. ljóst, og hún hefir því fundið mjög til þess, að sjá sjer ekki fært að leggja til, að, meiri viðbótarstyrk verði varið á þessu ári úr ríkissjóði til skipaferða heldur en hún leggur til á þskj. 181.

Jeg skal taka það fram, að síðastliðið ár hefir verið varið úr ríkissjóði til flóabátaferða 160–170 þús. kr. Þar af 70 þús. samkvæmt fjárl.; 80 þús. samkvæmt þál., sem samþ. var á þinginu 1920, og 11 þús., sem stjórnin hefir veitt Ísafjarðarbátnum, og sem hún hefir nú sett í frv. til aukafjárlaga fyrir árin 1920–1921. Þetta er því talsvert há upphæð, þegar tekið er tillit til þess, að þessir bátar hafa verið illa úr garði gerðir og hlutaðeigandi hjeruð hafa verið meira og minna óánægð með þá. En það hefir sannast þar sem oftar, að mönnum hefir þótt betra að veifa röngu trje en öngu. Skipið „Suðurland“ hefir á síðastl. ári fengið úr ríkissjóði 125 þús. kr. styrk, og það mun óhætt að fullyrða, að almenn óánægja hefir verið út af því skipi, og má segja, að flestum hafi fundist ferðir þess skips hafa verið of dýru verði keyptar, borið saman við not ferðanna.

Til „Suðurlands“ og fjarðabátanna hefir því á síðastl. ári verið varið úr ríkissjóði um 290 þús. kr. Í raun og veru má telja Suðurland með flóabátunum, því að til erfiðari strandferða er það of ljelegt. Og það gat ekki farið allar þær ferðir, sem það átti að fara. En þó hefir stjórnin veitt því aukastyrk, fram yfir þessar 125 þús. kr., til einnar ferðar á Hornafjörð. En enn meira hefir verið kostað til strandferðanna, því að vitanlega hefir orðið halli á ferðum Sterlings. Mjer er tjáð úr stjórnarráðinu, að hallinn á ferðum Sterlings muni nema um 300 þús. kr., en af þeim ferðum hafa vitanlega orðið mikil not, og meiri en af samanlögðum ferðum flóabátanna, að meðtöldu „Suðurlandi“. Og er það þá samtals um 600 þús. kr., sem varið hefir verið til strandferða á liðnu ári.

Þó að halli hafi orðið á Sterlingsferðum, þá er þeim peningum ekki illa varið, því að hann er lægri en styrkur hefði orðið til margra minni skipa, til þess að annast strandferðir. Til þess að menn eigi hægra með að átta sig á strandferðum yfirleitt, vil jeg benda á það, að styrktar hafa verið bátaferðir við Skaftafellssýslu, Rangársand, Faxaflóa, Rauðasand, Breiðafjörð, Ísafjörð, austurhluta Norðurlands og Austfirði. Nú hefir komið fram beiðni um hækkun á styrk til Ísafjarðarbátsins, en nefndin hefir ekki getað fallist á þá hækkun, og er ástæðan tekin fram í nál. Stjórnin hefir einnig lagt til í aukafjárlögum, að veittur yrði 11 þús. kr. viðbótarstyrkur, auk styrks þess, er í fjárlögum stendur, og lengra álítur nefndin að ekki sje hægt að ganga. Nefndin leggur til, að styrkur til Breiðafjarðarferða verði hækkaður um 3 þús. kr., og er ástæðan tekin fram í nál.

Nefndin hefir orðið ásátt um að mæla ekki með fleiri styrkjum í heild sinni, en við það eru einstaka nefndarmenn ekki bundnir. Þeir geta þess vegna verið með lítilsháttar styrkveitingum, þar sem þeir álíta að sjerstök nauðsyn eða sanngirni mæli með. Þetta á við mig um bátaferðir frá Hornafirði til Austfjarða.

Jeg gleymdi að taka fram áðan, að nefndin leggur til, að 8 þús. krónur verði veittar til bátsferða við Rangársand. Sá bátur hafði síðastliðið ár 10 þús. kr. styrk, og farið hefir verið fram á, að sá styrkur hjeldist þetta ár, en nefndin hefir ekki álitið flutningskostnað svo mikinn þangað, að ástæða sje til að hafa styrkinn svo háan.

Samgöngur við útlönd verða nægilegar þetta ár, eftir öllum sólarmerkjum að dæma. Bergenska fjelagið mun láta eitt skip sigla til landsins, Sameinaða fjelagið eitt eða tvö, en þau skip koma þó aðeins á helstu hafnir landsins, og því ekki með því ráðin bót á því meini, sem verið hefir um samgöngur við útlönd. Eimskipafjelag Íslands hafði einnig hugsað sjer að láta skip sigla milli útlanda og helstu hafna landsins, en þær ferðir áttu ekki að verða eftir áætlun, og var því ekki eins mikill fengur í þeim sem ella. Nefndinni var það þess vegna ljóst, að nauðsynlegt væri að komast að samningum við Eimskipafjel. Íslands, um að láta eitt eða tvö skip sigla eftir áætlun. En það varð ljóst, að slíkar áætlunarferðir voru óhagkvæmari fjelaginu, því að þeim fylgdi fjárhagsáhætta og sennilega tap. Það varð þó að samkomulagi, að fjelagið ljeti Goðafoss sigla milli Íslands og útlanda, frá júní og til ársloka, og skal þeim ferðum svo háttað, að skipið fer frá Kaupmannahöfn og til Austfjarða, kemur á margar hafnir á Austurlandi og Norðurlandi, til Ísafjarðar og þaðan beint til Reykjavíkur. Siglir svo frá Reykjavík aftur sömu leið til útlanda. Að þessu verður mikil bót fyrir Austur- og Norðurland, því að það hefir bagað einna mest undanfarin ár, að hafa ekki beinar samgöngur við útlönd. En af því, að fyrirsjáanlegt er, að tap yrði af þessum ferðum fyrir fjelagið, vildi það ekki ganga að þeim, nema það fengi 60 þús. kr. styrk úr ríkissjóði. Jeg álít, að þessar ferðir sjeu ekki of dýru verði keyptar, því að með þessu fær Austur- og Norðurland 4 áætlunarferðir frá útlöndum og 3 til útlanda. Það verður einnig sjeð fyrir millilandaferðum til Suður- og Vesturlands, því að Eimskipafjelagið ætlar að láta Gullfoss sigla til helstu hafna þar, en jeg veit ekki, hvort hann á að sigla eftir áætlun eða ekki, og þætti mjer vænt um að fá upplýsingar um það hjá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem sæti á í stjórn Eimskipafjelagsins. Með þessu móti er vel sjeð fyrir vöruflutningi frá og til útlanda á komandi ári, og þó að það kosti 60 þús. kr., þá vona jeg, að menn sjái ekki í þá fjárhæð. Það kostaði meira, ef millilandaskipin kæmu aðeins á fáar hafnir, og að flestir landsmenn þurfi að borga tvöföld flutningsgjöld.

Jeg vil taka nánar fram, hvernig nefndin hefir hugsað sjer samgöngur á sjó, og vil jeg þá geta þess, að búið er að semja áætlun fyrir Sterling. Það er ætlast til, að skipið sigli aðallega við Norður- og Austurland. Skipið Suðurland mun halda uppi ferðum milli Reykjavíkur og Vestfjarða, og á að fara 4 ferðir til Hornafjarðar.

Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) og hv. þm. Borgf. (P. O.) hafa kvartað undan því, að samgöngur væru ónógar við Borgarnes, því að þangað sigldi aðeins flóabáturinn Skjöldur. Þegar nefndin fór að athuga þetta, komst hún að raun um, að skipið Suðurland ætti að fara óþarflega margar ferðir vestur á firði, og þótti rjett að fækka þeim ferðum, og láta skipið sigla til Borgarness í staðinn. Nefndin spurði stjórn Suðurlandsfjelagsins, hvort hún hefði nokkuð á móti því að breyta svo til, en svar hennar var á þá leið, að hún áliti sjer það ekki fært nema gegn 21 þús. kr. viðbótarstyrk. Með þessu móti hefði fjelagið 146 þús. kr. styrk, en nefndinni þótti það óhæfilega hátt og vildi hætta samningum við fjelagið. En þegar til kom, fekk nefndin vitneskju um það, að stjórnin hefði gert bindandi samninga við fjelagið um þessar Vesturlandsferðir, svo að nefndin fekk ekki um þokað. Jeg skal geta þess, að nefndin lítur svo á, að stjórnin hafi hjer verið óhæfilega fljót á sjer, og lýsir óánægju sinni yfir þessum samningum hennar. Vjer hefðum líklega getað sparað okkur að mestu þetta tillag til Suðurlands.

Nefndinni er það ljóst, að ýmsum landshlutum muni finnast þeir verða útundan með samgöngur, en það er ekki hægt að gera öllum til hæfis. En þó er ástandið á sumum stöðum svo, að varhugavert er að neita um styrk. Á þetta sjerstaklega við Austur-Skaftafellssýslu. Það hafa komið beiðnir frá Þórhalli Daníelssyni í Hornafirði um 15 þús. kr. styrk, til þess að halda uppi ferðum milli Hornafjarðar og annara fjarða þar eystra. Nefndin sjer fulla þörf á ferðum þessum, þó að eigi treystist hún til þess að mæla með styrkveitingu til þeirra. En þess vil jeg geta, að þessi maður, sem sækir um styrkinn, hefir á undanfarandi árum sýnt lofsverðan dugnað, með því að halda uppi ferðum til Hornafjarðar. Þessar ferðir eiga að standa yfir frá nýári og fram í júní, og stendur svo á þeim, að útgerðarmenn eystra gera út frá Hornafirði á þeim tíma, og þurfa þeir því að hafa samgöngur við þá staði, sem þeir eru frá.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafa komið fram með brtt., um að veita 15 þús. kr. til slíkra ferða, og ráði sýslunefndir Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu yfir styrknum. Nefndin hefir ekki rætt þá brtt., en jeg býst við því, að afstaða hennar sje sú sama og til málaleitunarinnar, sem áður var komin í sama tilgangi. Jeg veit, að almenn óánægja er þar eystra yfir því, að taka af styrk til flóabátanna, sem gengið hafa þar. Áður gengu 2 bátar frá Seyðisfirði, annar suður, hinn norður, en síðasta ár var aðeins 1 bátur. En þó að tjón sje fyrir Austfirðinga að missa af þessum styrk, þá væri þó meira tjón fyrir þá, ef Goðafossferðirnar yrðu ekki í ár, og þess vegna hefir nefndin hugsað sjer að spara styrk til þessara báta og fá Goðafoss í þeirra stað. Til bátanna við Norður- og Austurland gengu á síðastl. ári 45 þús. kr. úr ríkissjóði, og verða Goðafossferðirnar að eins 15 þús. kr. dýrari, en nefndin álítur að sá kostnaðarmismunur borgi sig. En ef ekki verður gengið að styrknum til Goðafoss, þá mælir nefndin með styrk til flóabáta á Norður- og Austurlandi.

Jeg álít ekki þörf að fara um þetta fleiri orðum; jeg á, ef til vill, eftir að tala mánar um styrk til Hornafjarðarbátsins, en læt það bíða að sinni. Jeg vona, að háttv. fjárvn. geti fallist á niðurstöðu samgmn., og að háttv. þingdeild sætti sig við hana líka.