01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Magnús Kristjánsson:

Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi brtt. á þskj. 163.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hefir rækilega minst á það mál, og jeg hefi þar litlu við að bæta. En mjer fanst, satt að segja, þessi brtt. koma úr hörðustu átt, þar sem háttv. þm. Str. (M. P.) er faðir að henni. Jeg bjóst raunar við því, að hann mundi vera þessari litlu fjárveitingu til sjúkrahússins hlyntur. Mjer hefir skilist svo, að þess mætti sjerstaklega vænta af honum, að hann bæri heilbrigðismálin fyrir brjósti og mundi verða manna síðastur til þess að narta utan úr sjálfsögðum fjárhæðum til þeirra mála.

Þessi háttv. þm. (M. P.) segir að vísu, að þetta sje ekki fyrir honum mikið fjárhagsatriði, heldur stefnumál. En jeg verð að líta svo á, að þessi stefna þm. sje ekki rjett, vegna þess, að sjúkrahús Akureyrar og sjúkraskýli í sveitum eru alls ekki sambærileg. Sjúkrahús þetta er sótt, að meira og minna leyti, úr öllum landsfjórðungum, svo að helst mætti segja, að það nálgaðist það mest að kallast landsspítali. Norðlendingar hafa lagt manna mest á sig til þess að koma heilbrigðismálum sínum í sæmilegt horf. Mætti, ef til vill, segja, að þeir hefðu í því efni reist sjer hurðarás um öxl. En hvað sem því líður, þá ber þó að virða þessa viðleitni þeirra að makleikum.

Jeg vil einnig geta þess, að 6 af 7 nefndarmönnum hafa talið þessa styrkveitingu til sjúkrahússins á Akureyri sanngjarna. Það er háttv. þm. Str. (M. P.) einn, sem hefir fundið hvöt hjá sjer til þess að klípa af henni. (M. P.: Hver hefir sagt, að jeg stæði hjer einn að máli?). Þingmaðurinn (M. P.) verður að fyrirgefa, þótt jeg haldi mjer hjer aðeins við það, sem fram er komið í málinu.

Annars skal jeg ekki um þetta fjölyrða. Það er óþarfi. Jeg er viss um, að hv. deildarmenn munu hallast að skoðun meiri hl. nefndarinnar í þessu máli.

Jeg býst við, að það megi segja, að þetta litla tillag til sjúkraskýlanna sje mjög af skornum skamti, og þau eru mjög svo ófullkomin og hafa lítil eða engin tæki. En um sjúkrahúsið á Akureyri er öðru máli að gegna. Það hefir nú aflað sjer flestra þeirra tækja, sem hægt er að búast við, meðan löggjafarvaldið sýnir því ekki meiri sóma en hingað til hefir átt sjer stað.

Þótt jeg að vísu líti svo á, að þessi litli munur — 3 þús. krónur. — geri hvorki til nje frá fyrir sjúkrahúsið, þá vil jeg þó eindregið leggjast á móti því, að brtt. nái samþykki deildarinnar. Og það er vegna þess, að jeg vil ekki og get ekki fallist á skilning háttv. frsm. og flm. brtt. (M. P.) að setja sjúkrahúsin á bekk með sjúkraskýlunum.

Og jeg segi, að jeg get ekki talið það annað en smámunaskap — svo jeg við hafi væg orð — af þessum háttv. þm. (M. P.) að flytja þessa brtt. Og þykir mjer ekki ólíklegt, að háttv. þdm. líti á þetta mál öðrum augum en háttv. flm (M. P.).

Mjer skildist það á orðum hæstv. fjrh. (M. G.), að hann hallaðist að sömu skoðun og háttv. frsm. (M. P.), og býst jeg við því, að fyrir honum hafi einnig vakað það sama, nefnilega að halda fast við regluna um sjúkraskýli, en þetta er hrein og bein yfirskinsástæða, sem ekki getur talist samboðin hæstv. fjrh. (M. G.).

En meðan þessi regla er ekki viðurkend hjer í þinginu, þá fæ jeg ekki sjeð, að það sje rjettmætt að færa hana fram sem gilda ástæðu. Nei, það verður að finna aðrar ástæður til þess að geta, með góðri samvisku, nartað utan úr þessari litlu fjárhæð. En jeg býst ekki við, að slíkar ástæður finnist margar eða mjög veigamiklar.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á eftirlaun til ekkju Matthíasar Jochumssonar. Mjer er það kunnugt um fjárhagsástand hennar, að jeg veit, að það mundi koma sjer mjög illa, ef klipið væri af þessari fjárveitingu. Það vill svo til, að hið látna stórskáld og andans mikilmenni hefir undanfarin ár sjeð fyrir mörgum ungum barnabörnum sínum, sem nú eru hjá ekkju hans. Jeg þori því að gera ráð fyrir, að ef skáldið vissi hverju fram fer hjer, eins og hann var fulltrúaður á í lifanda lífi, að andi mannsins hjeldi áfram að vera starfandi með fullkomnu meðvitundarlífi hinumegin, þá mundi honum falla það mjög þungt og vera það hin mesta skapraun að sjá börnin, sem hann unni svo heitt, og voru gleði hans í ellinni, líða skort. Jeg verð því að telja það mjög æskilegt, að þingið dragi eins lítið og það frekast sjer sjer fært af þessari styrkveitingu, sem hann hafði. Ekkjan er líka alls góðs makleg, því að hún mun eiga drjúgan þátt í því, að hann gat helgað krafta sína og gáfur hinu þjóðfræga starfi sínu eins og raun ber vitni.