01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Gunnar Sigurðsson:

Þótt jeg kveðji mjer hljóðs, er það ekki til þess að fara að taka framsöguna af háttv. meðnefndarmanni mínum, þm. Str. (M. P.), heldur að eins til að leggja áherslu á nokkur atriði fjárlaganna. Jeg þakka hv. þm. Ak. (M. K.) fyrir ræðu hans, sjerstaklega það, sem hann sagði um eftirlaun til ekkju Matthíasar Jochumssonar, og hefir hann þar tekið af mjer ómakið. Jeg vil undirstrika það, að við nefndarmennirnir tókum nærri okkur að þurfa að neita. Það er mjög leiðinlegt að þurfa að spara til þess, sem nytsamt er að styrkja, en sjálfsagt er að beygja sig fyrir nauðsyninni og sníða sjer stakk eftir vexti, þegar fjeð vantar. Og mjer er það ljóst, að eins og sakir standa eru upphæðirnar í fjárlögunum altof háar, í samanburði við væntanlegar tekjur, en það er ekki beint þessu þingi að kenna, heldur stefnu fyrri ára, og ekki er svo gott að gerbreyta fjárlögum á einu ári.

Mjer þótti háttv. frsm. (M. P.) ekki taka það nógu skýrt fram, að það eru aðallega stóru upphæðirnar, sem meiri hl. nefndarinnar vill spara, en ekki smáupphæðirnar, sem minst munar um. Við viljum draga að leggja í kostnaðarsöm fyrirtæki í bili, og bíða betri tíma. Með því sláum við tvær flugur í einu höggi. Við spörum fje, svo við getum betur stutt að því, að framleiðslan rjetti við, og með því að leggja allan kraft á að efla og auka hana, fáum við fyrirtækin með minni kostnaði síðar, þegar dýrtíðin minkar eitthvað, eins og vænta má að verði.

Jeg get ekki látið hjá líða að fara ofurlítið út í hreppapólitík. Jeg vildi nefna ofurlítið bátsferðirnar milli Reykjavíkur og Rangársands. Skýrslur, sem sendar hafa verið háttv. samgmn., sýna fulla þörf á, að viðbótarstyrkur til þessara bátsferða verði 10,000 kr. Sýslan er, eins og kunnugt er, illa sett hvað samgöngur snertir, algert hafnleysi og slæmir landvegir. Tvö kaupfjelög eru að byrja, og hafa því litlu úr að spila. Bátarnir verða að sæta lagi að komast út og inn, og verða oft að liggja, jafnvel svo vikum skiftir, til byrjar. Síðasta ár, sem háttv. samgmn. leggur til grundvallar, hafa bátarnir verið sjerstaklega heppnir, svo það er valtur grundvöllur í framtíðinni. Hún leggur til, að styrkurinn verði 8000 kr., en megi aldrei fara fram úr 1/3, flutningskostnaðar.

Viðvíkjandi umsókn fyrv. símastjóra í Vestmannaeyjum, vil jeg taka það fram, að mjer þykir framferði símastjórnarinnar mjög vítavert. Segja fyrst manninum upp stöðunni og gefa honum síðan vottorð um, að hann sje í alla staði vel fær til að hafa starfann á hendi. Þetta framferði er mjer algerlega óskiljanlegt, og er jeg sammála hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að símastjórnin ætti helst sjálf að bæta halla stöðvarstjórans að einhverju leyti. En eins og sakir standa, er ekki forsvaranlegt að bæta honum ekki hallann að einhverju leyti.

Þá er það viðvíkjandi styrknum til þessara fáu námsmanna, sem fjvn. leggur til. Mjer þykir æði hart að heyra hæstv. fjrh. (M. G.) setja sig á móti því, að efnilegir menn sjeu styrktir til að ljúka námi sínu. Enginn ætti betur að geta skilið nauðsyn þess. Það mundi þykja óviturlegt, ef banki, sem hefði veitt lán til húsbyggingar, drægi að sjer hendina og neitaði að láta meira fje, þegar aðeins væri eftir að setja alla glugga á húsið. Húsið væri einskis virði og lánveitingin gagnslaus. Eins er það með námsmennina. Ef þeir verða að hætta fyr en þeir hafa lokið prófi, verður námið einskis virði, eða jafnvel verra en það. Jeg get verið samdóma hv. 2. þm. Skagf. (J. S.) um það, að varhugavert sje að styrkja menn til að byrja nám. En það er sitthvað, að styrkja til að byrja eða að ljúka, og það er hið síðartalda, sem hjer er farið fram á.

Mjer finst sjálfsagt að veita fje til silfurbergsnámunnar í Helgustaðafjalli. Það getur orðið mikið gróðafyrirtæki, ef vel er á haldið. Við erum svo að segja einir um silfurbergið, og gætum fengið fyrir það stórfje, ef vel er á haldið; t. d. er mikill markaður fyrir það í Þýskalandi.