01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M):

Það voru aðallega ummæli hv. 2. þm. Skagf. (J. S.), sem koma mjer til þess að standa upp. Hann talaði um það, að óheppilegt væri og athugavert, að stjórnin greiddi fje úr ríkissjóði eftir tillögum fjvn., eða nefnda einna, eins og nú hefði komið fram. Þessi athugasemd er alveg rjett. Þetta er aðferð, sein ekki má yfirleitt viðhafa. En ástæða þess, að þetta var gert í þetta skifti, þ. e. a. s. eftir tillögu fjárveitinganefnda í fyrra, var sú, að þingið var þá mjög stutt, og því slitið af mikilli skyndingu, svo að enginn tími vanst til að fá fjárveitingar, sem sumar virtust þó, svo að segja, sjálfsagðar. á fyllilega lögmæltan hátt. Þess vegna var það ráð tekið, að fjárveitinganefndir sendu stjórninni tillögur um nokkrar fjárbeiðnir, sem þær lögðu til að teknar væru til greina. Vegna þess, að þannig stóð á, hætti stjórnin á það að taka þær fjárbeiðnir, sem helst þótti ástæða til, til greina. Annars mun háttv. frsm. fjvn. (M. P.) sjálfsagt minnast á þetta nánar.

En úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, vildi jeg minnast örlítið á nokkrar brtt., sem hjer eru fram komnar. Um fjárveitinguna til Ara Arnalds, sýslumanns, vil jeg taka það fram, að jeg get ekki fallist á það, að með henni sje tekin upp sú regla, sem sjálfsagt sje að fylgja um alla embættismenn. Það hefir komið fyrir áður, að þingið hefir veitt styrk, þegar svipaðar ástæður hafa verið, án þess að binda sig að öðru leyti, enda verður þetta að vera hrein undantekning.

Út af fyrirlestrastyrknum til Stýrimannaskólans skal jeg geta þess, að jeg taldi ekki heimilt að borga hann, þegar fram á það var farið, án þingssamþyktar, en mun hins vegar hafa dregist á að mæla með því við þingið, og geri það hjer með.

Þá er um skrifstofukostnað fræðslumálastjóra, sem jeg er háttv. nefnd þakklátur fyrir að hafa tekið upp, enda er það ekki í samræmi við aðra starfsmenn landsins, að hann skuli ekkert slíkt hafa haft, og hefir víst aðeins verið af vangá í upphafi.

Um Kvenrjettindafjelagsstyrkinn skal jeg geta þess eins, að á upphæðina sjálfa var ekki minst í fyrra, en hins vegar hefir kostnaður við ferðina að sjálfsögðu orðið meiri en kostnaður við aðrar samskonar sendiferðir í fyrra.

Um styrkinn til skálda og listamanna er það að segja, sem áður hefir verið fram tekið, að hann varð svo lítill í ár, af því að 5000 kr. af honum voru veittar í fyrra, fyrir þá sök, að ýmsir, sem til Ítalíu ætluðu, kváðust fremur geta farið þá en seinna. En hins vegar mun úthlutunarnefndin hafa ætlast til að fá hækkun á styrknum á þessu ári. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að mjer þykir það mjög óheppilegt, að Jóh. Kjarval skuli engan styrk hafa fengið, bæði af því, að mjer er persónulega kunnugt um það, að hann á erfitt uppdráttar, og svo af hinu, að hann er eflaust einhver efnilegasti af listamönnum okkar, þó að sumum þyki hann nokkuð undarlegur í hinum síðari verkum sínum. Af sömu ástæðum hefði jeg álitið rjett, að Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hefði fengið styrk.

Að því er til alþýðuskólanna kemur, vil jeg aðeins geta þess, að jeg sakna þess, að ekki er enn tekin til greina beiðni um styrk til Hvítárbakkaskólans, sem jeg verð að telja sjerstaks styrks verðugan, einmitt nú.