01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Jeg finn mjer skylt að þakka háttv. fjvn. fyrir undirtektir hennar undir þá málaleitun mína, að ríkið láni hina umbeðnu upphæð, 8 þús. kr., til læknisseturskaupa í Reykhólahjeraði.

Eins og nokkrum háttv. þdm. er þegar kunnugt, hafa allmargir menn í viðkomandi hjeraði sjeð nauðsynina á því, að óhjákvæmilegt væri, að hjeraðsbúar gætu bent á heppilegan stað til læknisseturs, svo framarlega sem þeir ættu að gera sjer vonir um, að læknir fengist í hjeraðið.

Læknir sá, er var þar seinast og nú er látinn (Oddur sál. Jónsson), átti sjálfur jörðina, er hann bjó á, svo engin von er til, að hún verði fáanleg til læknisseturs í framtíðinni. Það er hvorttveggja, að hún mun ekki hafa verið föl, enda hjeraðinu tæpast fært að kaupa hana. Til þess að koma máli þessu í framkvæmd, var af hjeraðsbúum kosin 3 manna nefnd, þeir Ólafur Eggertsson, Króksfjarðarnesi, Ingim. Magnússon, Bæ og Andrjes Ólafsson, Brekku. Það, sem menn þessir hafa þegar gert í málinu, er það, að þeir hafa keypt jörð fyrir 8500 krónur. Jörð þessi má telja að sje, legu sinnar vegna, sjerstaklega vel valin til læknisbústaðar, enda nokkurnveginn húsuð, eftir því, sem gerist á sveitabæjum.

Þess vil jeg láta getið, að í ráði er, að sjúkraskýli verði reist á þessu fyrirhugaða læknissetri strax og læknir kæmi í hjeraðið og ástæður leyfa. En til alls þessa vantar fje. Það hefir því orðið að ráði hjá hjeraðsbúum að leita til hins háa Alþingis um lánbeiðni þá, sem hjer er um að ræða. Með tilliti til þess lofsverða áhuga, er hjeraðsbúar hafa á máli þessu, svo og hinnar brýnu nauðsynjar, er á þessu er, vænti jeg þess, að háttv. deild verði við þessum, að mínu áliti, sanngjörnu óskum.

Um einstök atriði, er þetta snerta, skal jeg annars ekki deila. Þar sem hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á það, að vextir væru kann ske nokkuð lágir af lánum, en lánstíminn mætti hins vegar vera lengri, þá skal jeg ekki gera það að neinu kappsmáli, enda gekk mjer þarna engin ágirnd til, heldur fór jeg þar eftir reglum, er áður hefir verið fylgt. Þess hefir verið getið af hæstv. fjrh. (M. G.), að þetta mætti að nokkru leyti teljast styrkur, og er það þá auðvitað að því leyti, sem lánskjörin eru betri, en hverfur að því leyti, sem þau eru þrengd, t. d. með hækkuðum vöxtum.

Jeg geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að hreppar þeir, sem nefndir eru í brtt. minni, taki lánið, og að viðkomandi sýslufjelög standi að baki og beri ábyrgðina, svo ekki verði það misskilið, hver sje lántakandi. Jeg hefi skrifað tveimur af mönnum þeim, sem gengist hafa fyrir máli þessu, og tjáð þeim, að málaleitun þeirra mundi hafa góðan byr í þinginu, en ekki fengið ennþá svar frá Ólafi Eggertssyni, sem jeg bað þó að láta mig sem fyrst vita, hvort það væri ekki þeirra meining, að hreppar þeir, sem hlut ættu að máli, tækju lánið sameiginlega. Fleira hefi jeg ekki að segja um till. þessa. Hún hefir ekki mætt neinum andmælum, og er jeg þakklátur háttv. deild fyrir það.

Háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) skýrði frá því í gær, að e.s. Suðurland ætti að annast samgöngur milli Reykjavíkur og Vestfjarða, alla leið til Ísafjarðar, og skildist mjer á orðum hans, að með þessari ráðstöfun væri vel sjeð fyrir samgöngum við Vestfirði. Hins vegar fanst mjer samt, að hann teldi skipið lítt fært til að annast þessar ferðir, og finst mjer það trúlegt, eftir því, sem skip þetta reyndist síðastliðið sumar, og koma þá ráðstafanir þessar að litlu haldi og Vestfjörðum til lítils gagns, einkum þó þegar þess er gætt, að Sterling er ekki ætlað að koma nema einu sinni, eða eina ferð, á Vestfirði, og hlýtur þá að liggja í augum uppi, að þetta verða með öllu ónógar samgöngur. Annars finst mjer nefndin hafa gert allmikinn mun á viðkomustöðunum Bíldudal og Patreksfirði. Jeg, sem kunnugur er um þessar slóðir, get ekki gert mjer grein fyrir, af hvaða ástæðum sá mismunur sje gerður, og vildi því leyfa mjer að biðja nefndina um upplýsingar í því efni, hvaða ástæður nefndin hefir haft, til þess að gera þennan mismun á þessum viðkomustöðum, sem, að mínu áliti, ættu að vera sem allra jafnast settir. Hins vegar skal jeg fúslega viðurkenna það, að jeg myndi í alla staði sætta mig við það, þótt 1. ferð Suðurlands fjelli algerlega niður, ef samgmn. gæti sjeð sjer fært að látaskipið fara einu sinni eða tvisvar inn á Króksfjörð, eins og jeg hafði óskað eftir við nefndina. En eftir því sem jeg best veit, og áætlunin mun sýna, þá hefir enn ekki verið gert ráð fyrir því, og vildi jeg því beina þessu til nefndarinnar, í þeirri von, að hún lagfæri þetta, ef mögulegt er.

En svo ber líka að líta á það, í þessu samgöngumáli við Vestfirði, að þetta skip, Suðurland, er ekki einungis ætlað Vestfirðingum til hagræðis, þar sem beinlínis eru fyrirskipaðar 4 ferðir austur á Hornaf jörð, sem því er ætlað að annast. Og þótt brugðið geti til beggja vona með þessar Hornafjarðarferðir, eins og háttv. þm. A.- Sk. (Þorl. J.) sagði hjer í gær, þá er þó vitanlegt, að þessar austurferðir eru þegar ráðgerðar, og því ástæðulaust að telja skipið einungis sem strandferðaskip fyrir Vestfirði.

Eins og málið horfir því við nú, þá get jeg ekki betur skilið en að fyrir samgöngumálum okkar Vestfirðinga sje illa sjeð, einkum þegar á það er litið, að lítil von er um, að millilandaskipin komi þar við, því að það tel jeg ekki, þótt þau komi við á Ísafirði. (Þorst. J.: Misskilningur!). Mig skyldi gleðja það, að þetta sje misskilningur, eða máske háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) vildi segja mjer, hvað millilandaskipin eigi oft að koma til Flateyjar, til dæmis, og getur hann þó varla neitað því, að þar sje stór verslunarstaður. — Mjer heyrðist á háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að honum þætti illa sjeð fyrir samgöngum við Austfirði, og teldi litlar bætur felast í till. nefndarinnar, en jeg hygg þó, að ekki sje minni ástæða fyrir mig að kvarta, því að eftir því, sem þegar er upplýst, höfum vjer orðið stórum ver úti, eins og jeg hefi nú bent á, og ekki síst, þegar litið er á, hvað millilandaskipin koma oft við á Austfjörðum. Hvað þessa mótorbáta snertir, þá fer til þeirra svo mikið, að það borgar sig varla að láta þá halda ferðum uppi. Enda finst mjer það undravert, og veit ekki hvernig á því getur staðið, að ýms fjelög, sem eiga stærri skip og sigla styrklaust, geta látið skipin bera sig og haft töluverðan hagnað, þar sem mótorbátarnir, sem styrktir eru til að halda ferðum uppi á sömu slóðum, bíða árlegan halla af rekstrinum. Þetta er óneitanlega undarlegt, og ekki að furða, þó að manni fljúgi í hug, að eitthvað hljóti að vera bogið við framkvæmdarstjórnir þessara styrktu báta.

Það þykir nú víst illa hlýða, að jeg mæli á móti Breiðafjarðarbátnum Svani. Jeg heyri nú sagt, að hæstv. stjórn hafi lofað 3 þús. kr. styrk þessum bát, ef hann fari vestur eina ferð. Fjelaginu mun nú varla hafa veitt af þessum styrk. En jeg get ekki annað sjeð en að hægt hefði verið að fá bát til þess að skjótast þessa ferð fyrir langtum minni borgun, því að væntanlega hefði hann getað fengið fullfermi. En ef þetta hefir verið gert í áliggjandi lífsnauðsyn, eins og fram hefir verið tekið, þá er þetta afsakanlegt. Þess vil jeg þó geta, að vesturhluti Barðastrandarsýslu og nokkur hluti af austursýslunni mundi heldur hafa verið látinn deyja drotni sínum heldur en hæstv. stjórn legði fram fje til að styrkja þá til slíkra ferða.

Jeg skal vera fáorður um brtt. á þskj. 129, en verð þó að geta þess, að 1. liðurinn þar kom mjer undarlega fyrir sjónir, sjerstaklega þó vegna þess, að uppbótar þessarar er hvergi æskt af núverandi hlutaðeigendum. Verð líka að álíta hana, að málavöxtum athuguðum, algerlega óþarfa.

Hins vegar er það viðvíkjandi styrknum til Ara Arnalds sýslumanns, að jeg vildi taka það fram, að jeg get ekki litið eins á hann og háttv. 1. þm. S M. (Sv. Ó.), sem telur hann nauðsynlegan. En jeg vil þó, þrátt fyrir það, engan veginn mæla á móti honum, þar sem í hlut á maður, sem mun hafa þessa mjög brýna þörf. En þar sem óhjákvæmilegt mun verða að veita þennan styrk, hvers vegna hefir þá háttv. nefnd ekki getað sint erindi Sigvald í Kaldalóns læknis, sem stendur alveg eins á fyrir, að sögn þar um kunnugra manna.

Um styrkinn til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum verð jeg að segja það, að jeg tel það vandræði, að þetta mál skuli hafa komist inn á þing, eins og utan um það hefir verið talað, og teldi því fara best á því, að málaleitun þessari væri sem fyrst vísað á sinn stað.

Annars hefi jeg ekki meira að segja um brtt. nefndarinnar að þessu sinni, enda býst jeg við að koma með brtt. við 3. umr.