02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Það er misskilningur hjá hv. frsm. samgmn. (Þorst. J.), að jeg sje að mæla á móti styrk til Breiðafjarðarbátsins. Jeg vildi að eins fá að vita, af hvaða ástæðum hinar umræddu 3000 kr. hefðu verið veittar. Eftir því, sem upplýst hefir verið, bæði af hæstv. stjórn og háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), virðist sem brýn nauðsyn hafi verið á þessum styrk, og þá er ekkert um það að segja. Það vil jeg þó taka fram, að jeg tel ekki hægt að telja þennan styrk veittan að neinu leyti til Barðastrandarsýslu, nema ef vera skyldi, að eystri hlutinn hafi haft eitthvað gott af ferðum þeim, sem hjer er um að ræða. Í vestari hluta Barðastrandarsýslu hefir bátur þessi aldrei komið á árinu, heldur ekki norðanverðu Breiðafjarðar eða á firðina fyrir norðan, svo sem Patreksfjörð og Tálknafjörð. Þar verða menn að draga alt að sjer á mótorbátum, er þeir fá hjer, án alls styrks frá ríkissjóði, en vitanlega leggja þeir með þessu móti mikinn kostnað á sjálfa sig. Með tilliti til þessa er ekki nema eðlilegt, þó að jeg líti svo á, að íbúar þeirra hjeraða, er þessar ferðir voru farnar fyrir, hefðu alls ekki fengið til þeirra neinn styrk úr ríkissjóði.

Jeg gekk út frá því, að hægt væri að fá bát í Reykjavík, til þess að annast þessar ferðir. En háttv. sessunautur minn, þm. V.-Ísf. (Ó. P.) segir, að það hafi ekki verið hægt. Ef svo er nú, þá er ekkert við því að segja. En sennilegast þykir mjer, að ekki hafi verið mikið til þess reynt, því að þetta var mun kostnaðarminna fyrir hlutaðeigendur.

Mjer þykir leitt að heyra háttv. frsm. (Þorst. J.) furða sig á því, að jeg skuli ekki fallast á þessar tillögur. Um það verður hver að dæma eftir því, sem honum líkar. Hann sagði, að skip Eimskipafjelags Íslands mundu fara ótilteknar ferðir til Vestfjarða. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi getað aflað mjer, liggja áætlanir þeirra algerlega í lausu lofti. En þetta er mjög bagalegt. Kaupsýslumenn hafa of lítil og oft verri en engin not af ferðunum, ef þeir hafa engar ábyggilegar áætlanir að miða við. Þar af leiðandi getur háttv. samgmn. ekki bygt neitt verulegar samgöngubætur á þessum skipum.

Jeg vil ekki gera þetta mál að ágreiningsefni. En jeg tók það fram í þessu sambandi í gær, að jeg sæi ekki ástæðu til að þakka hv. samgmn. fyrir það, að hún hefði gert neitt til að ía Suðurland til að fara eina eða tvær ferðir til Króksfjarðar, eins og jeg hafði þó vænst eftir að nefndin gerði, samkvæmt ítrekuðum tilmælum mínum. Jeg hefi fulla ástæðu til að ætla, að það hafi verið linlega að því gengið.

Jeg hefi minst á þetta mál við Nielsen framkvæmdastjóra, og skildist mjer á honum, að það væri öðru nær en að hann hefði snúist öndverður gegn þessu. Sömuleiðis hefi jeg talað við einn mann úr stjórn Suðurlandsfjelagsins, og fjekk alveg sömu undirtektir þar. En samgmn. sjálf hefir ekkert gert til að uppfylla ósk mína.

Í sambandi við viðaukatill. háttv. atvrh. (P. J.J á þskj. 138 fann háttv. 3 þm. Reykv. (J. Þ.) ástæðu til að setja út á það, að ekki væri enn komin fram áætlun um væntanlegan rekstur námunnar, er hægt væri að byggja á. Jeg held þó, að svo megi segja, þótt hún sje ekki enn komin alveg formlega fram. En mjer þykir leitt að heyra því beint að hinum unga og efnilega manni, sem áætlunina hefir samið, að ekki megi treysta heppi, af því ungur maður hafi gert hana. Í þessu sambandi má geta þess, — og því mun háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) ekki neita — að ekki hafa ætíð reynst ábyggilegar áætlanir eftir menn, þó ráðnir og reyndir hafi þótt!

Jeg hefi áður minst á áætlunina við hlutaðeiganda, og sagðist hann geta ábyrgst hana, að því leyti, að hún væri mjög varleg. Mjer þykir því leiðinlegt að heyra hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem sjálfur er verkfræðingur, beina þessum orðum að þessum unga starfsbróður sínum. Hann vill þó víst ekki neita því, að honum sjálfum hafi sæmilega tekist með þær áætlanir, er jeg geri ráð fyrir, að hann hafi búið til á þeim árum, er hann kom ungur og óreyndur frá skólaborðinu. Annars vona jeg, að reynslan sýni það, að áætlanir Helga manns sjeu engu síður ábyggilegar en ýmsar af áætlunum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.).