02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Gunnar Sigurðsson:

Umræður eru orðnar altof langar. Jeg sje eftir tímanum, sem varið er í þref um smáatriði, þegar stórmálin, sem fyrir þinginu liggja, sitja á hakanum.

Það er þó eitt atriði úr ræðu hv. frsm. fjvn. (M. P.), sem jeg verð að telja mikilsvert mál, sem sje stöðvarstjórinn í Vestmannaeyjum. Það er rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að hjer er ekki um peningaskyldu að ræða fyrir þingið. En það er meira, það er siðferðisskylda, æruskylda. Það er upplýst, að símastjórnin fjekk stöðvarstjórann til að segja af sjer. En samtímis gefur hún honum eitthvert besta vottorð, sem hægt er að gefa. Hæstv. atvrh. (P. J.) viðurkendi, að stöðvarstjórinn hefði orðið með harðasta móti úti. Það er engin furða, þegar hann hefir ekki fengið þau laun, að hann hafi getað lifað af þeim. Hv. atvrh. (P.J.)segir, að hann geti stundað aðra atvinnu jafnhliða. Jeg skil ekki, að viðskiftamönnum símans þyki það æskilegt, að stöðvarstj. sjeu t. d. rónir til fiskjar þegar þeir þurfa að fá sambönd við stöðina. (Atvrh.: Það er breiðasta brautin). Hvað hæstv. atvrh. (P. J.) á við með „breiðustu braut“ er mjer ekki ljóst, en eigi hann við, að það sje fjærst lagi, að símastj. stundi þessa atvinnu, þá er eðlilegt að mönnum verði fyrst fyrir að nefna þá atvinnu, sem mest er stunduð í Vestmannaeyjum, en það eru fiskveiðar.

Hæstv. atvrh. (P. J.) tjáðist vera ófáanlegur að ræða þetta mál hjer lengur, og gat þess í því sambandi, að hjer væri ekki um neinn glæp að ræða gegn símastjóranum. Einmitt það. Skilst ekki hv. atvrh. (P. J.), að væri hjer um glæp að ræða, þá heyrði málið undir dómstólana, en ekki þing og stjórn? Annars færi nú að vandast málið í sambúð þings og stjórnar, ef hvorttveggja væri ófáanlegt til að ræða um annað en glæpsamlegt atferli stjórnarinnar eða starfsmanna ríkisins. (Atvrh.: Þetta eru útúrsnúningar!). Nei, það þýðir ekkert að bera á móti því, að þetta hafi verið sagt, því að jeg hefi skrifað það niður jafnóðum. Hæstv. atvrh. (P. J.) endaði á því, að ekki ætti við að ræða þetta hjer. Það er þó undarlegt. Þm. eru skyldir til að gera það, meðan stjórnin átelur ekki þetta athæfi sjálf, eins og henni ber skylda til.