02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg finn ástæðu til þess að gera nokkrar athugasemdir út af ákúrum þeim, sem samgmn. hefir fengið, og vil þá fyrst snúa mjer að styrknum til Goðafoss. Nefndin tók þann kost að leggja til 60 þús. kr. fjárveitingu til Goðafoss, til þess að fá komið á reglubundnum áætlunarferðum við Norður- og Austurland, því að styrkurinn, sem undanfarið hefir verið veittur til bátaferða þar, hefir komið að tiltölulega litlum notum, og megn óánægja verið yfir því, hve bátarnir væru ófullkomnir, en flutningsgjöld þó há. Ef þetta skipulag kæmist á, verður varla hægt að segja, að Norður- og Austurland sje haft útundan í samgöngum, einkum þegar þess er gætt, að Sterling er, þar að auki, aðallega strandferðaskip fyrir þessa fjórðunga, og með Goðafossferðunum yrði þá einnig um leið bætt úr því, sem kvartað hefir verið um, að ekki væru til beinar áætlunarferðir milli Austur- og Norðurlands og útlanda. Hinsvegar er það um þetta að segja, frá fjelagsins sjónarmiði, að það mun að minsta kosti missa jafnmikils í af tekjum og styrknum nemur við það að þurfa að sigla eftir áætlun, en geta ekki hagað ferðum sínum eins og arðvænlegast er í hvert skifti, enda mundi Eimskipafjelagsstjórnin helst hafa kosið, að þetta tilboð hefði ekki komið, þótt hún treystist hins vegar ekki til þess að ganga fram hjá því, þegar þingið æskti þess. Út af því, sem sagt hefir verið, að skinið mundi sigla á allar sömu hafnir, hvort sem styrkurinn væri veittur eða ekki, vil jeg geta þess, að svo er ekki, því samgmn. fjekk tekna á áætlunina 3– 4 staði á Austurlandi, sem útgerðarstjóri hafði annars ætlað að sleppa, auk þess, að viðkomunum var öllum fjölgað að mun í hverri áætlunarferð. Að vísu má segja, að fullkomin bót sje ekki á þessu ráðin enn að öllu leyti. Jeg skal játa, að syðsti hluti Suður-Múlasýslu og Hornafjörður eru ekki vel settir, þó að sumir aðrir landshlutar sjeu reyndar lítið betur settir, t. d. vesturhluti Strandasýslu og Norður-Ísafjörður og jafnvel Breiðifjörður á kafla. En mikil bót er þó í þessu frá bátaferðum þeim, sem áður voru, og má í því sambandi minna á það, að engar skýrslur eða reikningar eru komnar frá Austfjarðabátnum, sem þó var gerður út í fyrra með miklum styrk, og mun það sjálfsagt vera af því, hvað báturinn hefir haldið illa áætlanir sínar og lítil samgöngubót orðið að honum. En til þess að bæta úr vandræðum þessara sýsluhluta, sem jeg nefndi, gæti hins vegar komið til mála að styrkja ferðir milli Hornafjarðar og t. d. Djúpavogs, en ekki lengra norðureftir, því að þannig kemst Hornafjörður í meira samband við áætlunarferðir stóru skipanna. Það finst mjer að ekki komi til mála, að landið fari að stórstyrkja bátaferðir með öllu Austurlandi, frá Hornafirði að Skálum, aðallega með það fyrir augum að gera þeim auðveldara að flytja fisk frá veiðistöðvum á verslunarstaðinn. Það þekkist að minsta kosti ekki á Vestfjörðum, að saltfiskur sje fluttur með strandferðaskipum, enda er það of dýrt, og þess varla að vænta, að áætlunarbundnir strandferðabátar geti legið um kyrt á hverjum vog og vík í 2–3 daga, meðan verið er að ferma og afferma lausan fisk, eins seinlegt og það er. Svo vil jeg einnig geta þess í þessu sambandi, að við Vesturlandsþingmennirnir höfum látið það í ljós, að við vildum sætta okkur við það, þótt Suðurland færi einni ferðinni færra til Vesturlands, ef það færi þá til Austfjarða í staðinn.

Svo vil jeg aðeins víkja einni athugasemd að háttv. þm. Barð. (H. K.), þar sem hann sagðist ekki geta verið samgmn. þakklátur fyrir ferðaáætlun Suðurlands, að því er Breiðafjörð snerti. Þess þakklætis þurfti heldur ekki, því að nefndin hefir engan þátt átt í þessari áætlun.

Af því að umræðurnar eru nú orðnar svo langar, vil jeg ekki fara út í fleiri liði, en verð þó að minnast lítillega á eitt atriði, launin til ekkju Matthíasar Jochumssonar. Bæði háttv. frsm. fjvn. (M. P.) og háttv. þm. Ak. (M. K.) hafa með hugðnæmum orðum lýst efnaleysi hennar og því, hvernig hún kæmist á vonarvöl, ef hún fengi þetta ekki. (M. P.: Ekki jeg!). En háttv. þm. Ak. (M. K.) því meira. Þó að jeg sje þeirrar skoðunar, að ekkju þessa ágæta manns væri þetta alls ekki of gott í heiðursskyni, finst fjer, að ummælunum megi ekki vera ómótmælt, því að það er víst, að ekki er eins þröngt í búi þessarar konu og af er látið, þar sem hún á ágæta menn að, sem bæði geta sjeð henni farborða og er það ljúft. Jeg mun því greiða atkv. till. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).