02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að vera langorður, þar sem háttv. meðnefndarmenn mínir hafa hlaupið undir bagga með mjer og fylt að nokkru leyti í þau skörð, sem orðið höfðu á framsöguræðu minni.

Jeg skal þá fyrst snúa máli mínu að háttv. samgmn. Jeg óskaði um daginn við framsögu fjáraukalaganna, að atkvgr. um brtt. hennar væri frestað til 3. umr. En úr því svona lengi hefir dregist með umræðurnar, þá hefir nefndin getað tekið nokkurn veginn afstöðu til þeirra, og vill hún styðja fjárveitinguna til Breiðaflóabátsins og bátsins, sem ganga á til Rangársands. En hvað snertir fjárveitingu til Eimskipafjelags Íslands fyrir áætlunarferðir skipsins Goðafoss, þá hafa fjárveitinganefndarmenn þar allir óbundnar hendur með atkv. sín. Og eigi síður, þar sem í umræðunum hafa komið fram nýjar upplýsingar frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um, að ef til vill yrði skipið ekki tilbúið nógu snemma, þótt hann gæti þess jafnframt, að annað skip yrði þá látið annast ferðirnar í þess stað. Og ef þessi styrkur verður samþyktur, þá mun nefndin leggja á móti fjárveitingum til annara flóabáta fyrir norðan og austan, nema ef til vill til Hornafjarðarbátsins. Jeg vil því undirstrika það, að ef styrkur til Eimskipafjelagsins fyrir ferðir Goðafoss verður samþyktur, þá mun nefndin leggja á móti fjárveitingu til annara flóabáta fyrir norðan og austan.

Jeg vil svo víkja nokkrum orðum að öðrum atriðum, sem komið hafa fram í umræðunum. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, út af styrknum til einstakra manna, að sjer fyndist, að fjvn. ein teldi sig vita um nauðsyn þeirra, og því ætti hún að vera nokkurnveginn einráð með þá. Jeg vil þá svara því til, að það sje ekki nema rjett, ef deildarmenn hafa ekki gefið sjer tíma til að kynna sjer skjöl þau, er styrkbeiðnir þessar snertir, og þar af leiðandi ekki sett sig inn í málin. Er því ekki annað ráð vænna fyrir þá en að fara að ráðum fjvn. — Þá talaði hæstv. fjrh. (M. G.) um, að ekki væri gott samræmi hjá mjer hvað snerti 12. og 18. gr. fjárlaganna, þar sem jeg vildi lækka styrkinn til sjúkrahússins á Akureyri, en hækka styrkinn til ekkju Matthíasar Jochumssonar. Jeg skal þá benda honum á það, að það er altaf bein stefna í fjárveitingum til sjúkrahúsa. — En hvað snertir styrk til ekkna. er öðru máli að gegna, og um það geta menn best sannfærst, með því að lesa 18. gr. fjárlaganna, því að þar virðist meira farið eftir efnum og ýmsu öðru en beinni stefnu. Því að þar er eigi að sjá, að sje neitt sjerstakt samræmi á milli fjárveitinga til ekkna. Get jeg því eigi sjeð, að það sje neitt sjerstakt brot, þó að þessi fjárveiting sje hærri en aðrar.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) sagði, að jeg hefði sagt, að laun biskups, landlæknis o. fl. starfsmanna ríkisins væru of lág. Þetta er að nokkru leyti rjett. Því að jeg er sannfærður um, að þau eru ekki nóg, og þá mundi skorta fje, ef þeir hefðu ekki aðrar tekjur til að framfleyta sjer á. — Annars þótti mjer vænt um, að hv. þm. (J. S.) skyldi viðurkenna, að jafnvægi launanna raskaðist við hámarkslaunaákvæðið.

Þá sný jeg mjer að vonarpeningi hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg verð að segja, að mjer fanst hann koma með nýja skýringu á, hvað meint væri með því orði, og var hún æðimikið milduð frá því, sem bændur alment telja vonarpening. Hv. þm. (Sv. Ó.) hafði það eftir mjer, að jeg vildi svifta hina yngri námsmenn styrk. Það hefi jeg aldrei sagt, en hitt sagði jeg, að jeg teldi það ekki rjett að svifta þá efnismenn styrknum, sem þegar hefði verið veittur hann, og Alþingi þar með búið að viðurkenna áður, að þeir væru hans maklegir. Þá vil jeg með örfáum orðum minnast á það nýmæli, er háttv. þm. (Sv. Ó.) kom fram með, skrifaða brtt. við brtt. fjvn. á þskj. 129. Jeg get ekki annað skilið en háttv. þm. (Sv. Ó.) hefði átt að geta komið með hana prentaða, þar sem brtt. nefndarinnar var útbýtt 12. mars, en nú er 2. apríl. Það lítur því eigi út fyrir annað en að hann hafi sannfærst fyrst í dag um nauðsyn þessarar breytingar. Jeg vil svo benda háttv. þm. (Sv. Ó.) á, að óþarfi er fyrir hann að vera að koma fram með skriflegar brtt. nú við 2. umr., þar sem 3. umr. er eftir. Þá ætti hann að geta komið þeim að, og verið búinn að láta prenta þær.

Þá sný jeg mjer að því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, út af 7. gr. fjáraukalaganna. Hann sagði, að stjórnin hefði borið þar fram tillögu, sem hún hefði vitað, að þingið gengi ekki inn á. (Jak. M.: Ekki þetta, heldur síðasta þing). Jeg vil aðeins upplýsa, að þetta kom ekki til umræðu á síðasta þingi. — Það var rjett, að fjrh. (M. G.) var því fylgjandi, að þessi maður fengi uppbót, en nefndin rjeði upphæðinni. Mjer þótti vænt um, að háttv. þm. (Jak. M.) sagði þetta, og það er gott til athugunar fyrir háttv. deild og bestu meðmæli með brtt. nefndarinnar á þskj. 129. Það var skýrt hjer í deildinni, að þessi maður hefði haft beint efnatjón af því að vera ráðherra, og þetta væri því ekkert fordæmi. Jeg vil svo undirstrika það, að svo framarlega sem deildin vill ekki láta þetta verða að fordæmi, þá eigi allir að greiða atkv. með brtt. nefndarinnar á þskj. 129. — Jeg vil svo aðeins taka það fram, að mjer finst það eigi vænlega horfa, þegar fjárlögin sjálf koma til umr., fyrst þrjá daga hefir þurft til þess að komast yfir eina umr. með fjáraukalögin.