02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jakob Möller:

Mjer þykir undarlegt, að hv. fjrh. (M. G.) telur sig vera ókunnugan máli stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum, þar sem hann þó tekur að sjer að halda uppi svörum fyrir stjórnina í því máli. Jeg skal játa, að það er ekki hægt að hafa þetta fyrir vönd á hann persónulega, en jeg tel það vera vönd á stjórnina í heild sinni, úr því hún hefir ekki rannsakað mál, sem hún þó hefir verið að gera tillögur um. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að sjálfsagt væri að heyra hvað landssímastjóri segði um þetta mál. Það hefði stjórnin átt að gera fyr. Það er hægt að segja svo, að maðurinn hefði átt að leita til dómstólanna. En það er hægt að flækja svo rjett mál, að eigi sje hægt að fá rjettan úrskurð, þó að til dómstólanna sje leitað, en hins vegar tel jeg, að stjórnin geti tæplega verið þekt fyrir að fara þannig að.

Háttv. frsm. (M. P.) var að tala um efnalegt tjón í sambandi við eftirlaun Sigurðar fyrv. ráðherra. En jeg vil halda því fram, að þess beri ekki að gæta, því að hann hefir tekið að sjer stöðuna, með þeim laununi, er þá voru, og þingið þurfti því enga ábyrgð að bera frekar á því.