02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Það er ekki mikið, sem jeg þarf að bæta við það, sem sagt hefir verið, því að það hefir ekki verið ráðist nema lítillega á till. samgmn. Viðvíkjandi tillögunni um styrk til h.f. Eimskipafjelags Íslands er jeg ekki sammála háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hv. þm. taldi víst, að „Goðafoss“ mundi koma á þær hafnir, sem áætlað er að hann sigli á, ef hann fær ríkisstyrk, enda þótt enginn styrkur yrði veittur. Jeg er þar á öðru máli en hann. Millilandaskipin eru ekki vön að koma nema á bestu hafnirnar, en þar sem fá skip ganga, þá er engin hætta á samkepni um hinar verri hafnir. Jeg býst við, að háttv. deild hafi tekið eftir ástæðum samgmn., sem sje, að skipið ætlaði að sigla eftir áætlun, og er ekki þörf á að rökræða það meir. Og í öðru lagi, að „Goðafoss“ er áætlaður á margar hafnir, sem engin von er til að skip frá útlöndum sigli inn á. Að vísu sleikir hann ekki upp allra smæstu hafnirnar.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) vítti samgmn. fyrir ferðaáætlun e.s. Suðurlands, að það skyldi ekki koma t. d. á Króksfjarðarnes o. fl. hafnir, en það er búið að tví- eða þrítaka það fram, að samgmn. hafði ekki ráð á áætlun skipsins. Þó geri jeg ráð fyrir, að nefndin hefði getað ráðið smábreytingum á áætluninni, svo framarlega sem það var skipinu ekki í óhag. Það er löng sigling til Króksfjarðarness, og hefði sjálfsagt ekki verið hægt að koma því á áætlun, en það er gefið, að ef nægur flutningur fæst, þá siglir skipið þangað, þrátt fyrir það, þótt það sje ekki áætlað þangað. Og jeg vona, að jeg þurfi ekki að taka þetta enn fram, að samgmn. hefir ekki samið við Suðurland.

Háttv. þm. A.-Sk. (ÞorL J.) óskaði, að jeg vildi taka aftur brtt. á þskj. 215. Jeg get að vísu gert það við þessa umræðu, en það er undir atvikum komið, hvort hún kemur fram við 3. umr. eða ekki. Ef svo fer, að deildin fellir Goðafossstyrkinn, mun nefndin mæla með styrk til flóabáta fyrir Austur- og Norðurland.

En jeg vil taka það fram, að það er engu minni þörf á bátaferðum á milli hafnanna norðan við Seyðisfjörð en á milli hafnanna sunnan við Seyðisfjörð.

Því er svo varið með Skála á Langanesi, líkt og Hornafjörð, að þar er nokkur útgerð. Sumir Austfirðingar flytja þangað, þá er útgerðin á Hornafirði er hætt. Þangað gengur ekkert skip, og það má telja nokkrar hafnir á milli Seyðisfjarðar og Langaness, sem ekkert skip kemur á, t. d. Loðmundarfjörð, Unaós, Hámundarstaði, Gunnólfsvík o. fl. Það er auðsjeð, að víða er pottur brotinn með slæmar samgöngur.

Meðan á umræðum hefir staðið. hefir komið tilboð frá m.b. „Úlfur“ um ferðir fyrir Austurlandi. Jeg geri ráð fyrir, að ef Goðafossstyrkurinn verður ekki veittur, að þá mæli samgmn. með ríflegum styrk til Austfjarðabáts.

Hæstv. atvrh. (P. J. ) sagði, að betra væri að sjá eftir á en fyrirfram. Jeg játa það og kannast fúslega við, að hæstv. stjórn gat ekki vitað fyrirfram, að kolin mundu lækka svo í verði, sem orðið hefir. En hæstv. landsstjórn hefði átt að vera fullkunnug sú almenna óánægja, sem hefir verið ríkjandi með Suðurland, og þótt kolaverð hefði ekkert lækkað, þá var það jafnfráleitt að lofa Suðurlandi 125 þús. kr. styrk til að sigla á flestar bestu hafnirnar á Vestfjörðum. Fje þetta hefði að mestu leyti mátt spara, án þess að strandferðirnar hefðu að nokkru leyti orðið óhagstæðari við það.