02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Mjer skildist á háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), að hann teldi mig hafa staðið á móti því, að till. hans væru teknar til greina, en það er ekki rjett. Það getur verið, að háttv. þm. (Þorl. J.) hafi nokkuð til síns máls, og hefi jeg aldrei farið fram á það við nefndina, að hún feldi beiðnir háttv. þm. (Þorl. J.). — Háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) sagði, að búið væri að segja mjer þrisvar, að útgerðarmenn skipsins Suðurlands vildu ekki taka Króksfjarðarnes upp á áætlun skipsins. Þetta er ekki rjett skýrt frá. Og það er alls ekki ástæðulaust, þótt jeg haldi fast við beiðni sýslubúa minna um þetta, þar sem jeg hefi ástæðu til að ætla, að samgmn. hafi ekki sýnt útgerðarstjóra „Suðurlands“ þá samningalipurð sem skyldi, til þess að hún gæti vænst verulega hagkvæmra ferða. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að jeg hefði verið að lasta skip þetta. Það hefi jeg ekki gert. Jeg sagði aðeins, að ef skipið væri ekki betra en því var lýst hjer í deildinni, þá mundi vafasamt, hvort það nægði til Vestfjarðaferðanna einna, og það að sumrinu.

Háttv. atvrh. (P. J.) sagði, að jeg þekti ekki skipið. Það kemur málinu ekkert við, hvort jeg þekki það eða ekki, því að eins og jeg hefi þegar tekið fram, dæmdi jeg ekkert um skipið. En mjer er spurn: Hvað þekkir hæstv. atvrh. (P. J.) þetta skip? Vitanlega ekki neitt. Jeg hefi þó ferðast tvívegis með því, og í annað skiftið í allvondu veðri. Og jeg hefi síðan styrkst í þeirri skoðun, að skip þetta sje vel nothæft til sumarferða á þessu svæði, en allsendis óhæft til ferða snemma vors eða á haustum austur um land, eða jafnvel til Vestfjarða.