02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Guðmundsson:

Það eru aðeins fá orð, sem jeg ætla að segja. Háttv. frsm. fjvn. (M. P.) kvað mig hafa getað komið með brtt. mínar við fjáraukalögin við 2. umr., svo ekki þyrfti að ræða um þær við 3. umr. En jeg vil segja háttv. þm. (M. P.) það, að jeg álít mig vera sjálfráðan um, hvað jeg geri í því efni, og þarfnast engra skipana frá honum um. hvað mjer ber að gera.

Háttv. þm. (M. P.) sagði, að þeir, sem hefðu meiri sómatilfinningu en jeg, væru meðmæltir fjárveitingunni til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum. En jeg vil taka það fram, að hæstv. fjrh. (M. G.), sem einmitt er manna kunnugastur þessu máli, er mjer sammála í þessu efni.

Jeg þarf ekki að minnast á skrifstofukostnaðinn til fræðslumálastjórans, því að jeg mun gera það við 3. umr. Sama máli er að gegna um fjárveitinguna til fyrv. skólastjóra á Hólum. Þessi mál þarf jeg að fá frekari upplýsingar um. Og jeg tel mig ekki minni mann. Þó jeg kannist við, að mig vanti rjettar upplýsingar í málunum, áður en jeg ber fram brtt. í þeim. Hitt er náttúrlega miklu hægara að vera nógu montinn og þykjast hafa vit á öllu. Jeg mun svo koma með nokkrar brtt. við 3. umr., og læt mig ekkert skifta, hvað háttv. þm. (M. P.) skipar fyrir í þeim efnum, og frábið mjer handleiðslu hans.