12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Það má segja um Þetta frv., að lengi getur vont versnað. Ilt var það, þá er það fór frá 2. umr., en útlit er til, að það verði mun verra, er það fer frá 3. umr. Jeg ætla ekki að rekja lið fyrir lið brtt. fjvn., en jeg get sagt um þær flestar, að jeg hefði helst kosið að þurfa ekki að sjá þær. Þær eru ekki allar undir sömu syndina seldir; einstaka virðast sanngjarnlegar, aðrar mitt á milli og enn aðrar óhæfar með öllu.

Ein tegund fjárveitinga knýr mig framar öllum öðrum til andmæla, og getur verið, að jeg komist þá um leið eitthvað út fyrir frv. Það er fjárveiting til vitabygginga vestan og sunnan, sem nú er tekin upp, endurbygging vita, sem nothæfir eru, jafnframt og fresta á, eins og kunnugt er, vitabyggingum austanlands, sem löngu hafa verið ákveðnar, jafnvel alt frá 1914. Nú á að dubba upp vita fyrir vestan, á Arnarnesi og í Elliðaey, fyrir nærri jafnmikið fje eins og kostar að reisa vitana við Berufjörð, en fresta þeim ennþá einu sinni, vegna fjárskorts, segir sagan. Á þá brýnu þörf vitanna eystra og vitaleysið þar er ekki lítið. Jeg man ekki betur en að Stokknesviti væri ákveðinn 1914, og Hann er óbygður enn. Og eftir gildandi fjárlögum átti að byggja vitann á Kambsnesi 1920, en vitana á Papey og Strætishorni á þessu ári, og var loforð vitamálastjóra gefið um þessar byggingar allar í einu fyrir ári liðnu, og fyrir því fullnægði hjeraðið þegar í fyrra skilyrði fjárlaganna um fjárframlag til byggingar smávitanna á Berufirði.

Nú eru höfð hausavíxl á þessu, og fjeð veitt til vita fyrir vestan. Það má vissulega ekki minna vera en að jeg votti nefndinni óþökk mína fyrir þessa meðferð málsins, mjer liggur við að segja ósæmilega meðferð, og getur verið að jeg muni henni þetta og stjórninni síðar.

Það mundi aðeins tefja tíma að rekja brtt. nefndarinnar, hverja af annari; þær eru flestar fánýti, sem hverfa ætti, og má þar meðal annars nefna Rómferðastyrkinn. En jeg stóð ekki upp til þess að átelja þetta sjerstaklega, þótt vanþakka sje vert. Það mun hjer, sem oftar, fara svo, að litlu verði um þokað.

Jeg á hjer brtt. á þskj. 244. Þær lúta ekki að því að hækka útgjöldin, heldur að því að draga úr þeim. Jeg benti á það við 2. umr., að fjárveitingin til Goðafossferða væri án skuldbindingar, og engin áætlun sett eða auglýst fyrir skipið; þess vegna alveg óvíst, hvað koma ætti móti þessum 60 þús. króna, sem að óþörfu er fleygt í Eimskipafjelagið.

Jeg sá mjer að vísu ekki fært að koma með brtt. um að fella styrkinn niður við þessa unir., þótt svo hefði átt að vera. En jeg fann mjer skylt að gera mitt ítrasta til að tryggja þeim ólánssömu landshlutum, sem við Goðafossferðirnar eiga að notast, ákveðinn ferðafjölda á árinu og einhver sæmileg not þessa mikla fjár. Þess vegna kom jeg fram með till. á þskj. 244, um Goðafossferðir og fjölda þeirra. Jeg veit, að það eitt vinst við styrk þennan, að skipið tínir upp 2 eða 3 smáhafnir, sem það hefði ekki komið á að öðrum kosti, en flestar hafnirnar hefði það heimsótt hvort sem var, og þá sjerstaklega þær hafnir Suður-Múlasýslu, sem samgmn. segir, að komið verði á, og ekkert er þakkavert, þótt gert verði. Jeg vona að þessi brtt. mín verði samþ., og ekki bætt gráu á svart með Goðafoss. Jeg þarf ekki að mæla með henni frekar; hygg að hún geri það sjálf.

Þá er það fjárveiting til ekkju þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar. Jeg vil miða við þau laun, sem maður hennar lifði, án dýrtíðaruppbótar, og tel það vel boðið. Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir miðað við 1200 kr. og dýrtíðaruppbót. og nemur það meiru en föstu heiðurslaunin, sem Matth. Joch. hafði, eða rösklega 2800 kr., í stað 2400 kr. Jeg játa það, að ekkja Matthíasar á skilið, að henni sje sýndur allur sómi og hún styrkt, ef hún er þess þurfandi, en hún á svo marga vel stæða menn að, að ekki þarf að óttast, að hún komist á vonarvöl. Jeg vil aðeins veita .eim styrk, sem hans þurfa, en ekki ausa fje í hvern einn, hvort sem þörf er á eða ekki.

Jeg hjelt, að hv. samgmn. mundi láta samgöngur eystra óhaggaðar, eftir því, sem þeim var komið við 2. umr. hjer í deildinni, og eftir það slys, sem hún hafði valdið með Goðafossveitingunni; en svo er ekki. Hún leggur nú til, að færður verði niður styrkurinn til flóabáts frá Hornafirði til Seyðisfjarðar úr 15 þús. kr. niður í 8 þús. kr. og útilokað sambandið við Seyðisfjörð og norðurfirðina. Hv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) sagði, að báturinn ætti að eins að ganga þangað, sem Sterling kæmi næst Hornafirði, og verður þá bátur þessi aðeins til selflutnings milli Hornafjarðar og Sterlings, og get jeg varla hugsað mjer álappalegra fyrirkomulag. Fyrst flytur Goðafoss frá útlöndum t. d. til Seyðisfjarðar, því næst Sterling eitthvað suður, t.d. til Djúpavogs, og síðast flóabáturinn til Hornafjarðar. Nefndin segist vilja veita þetta vegna Hornafjarðar, og heldur að hann þurfi aðeins að hafa samband við Djúpavog einan, og álítur hún víst Hornfirðingum óholt að hafa kynni af fólki norðar. Mjer þykir einkennilegt að nefndin skyldi ekki velja Papey eða Hvalbak fyrir endastöð! Allar þessar tillögur nefndarinnar eru sýnilega sprottnar af misskilningi. ef eigi tómlæti. Það er einkennilegur sparnaður að klípa 7 þús kr. af nauðsynlegri fjárveitingu til flóabáts, sem getur örfáum að gagni orðið á eftir, en kasta 60 þús. sama sem í sjóinn með veitingunni til Goðafoss. Þeir aðrir styrkir, sem hjer eru ráðgerðir til flóabáta, eru engan veginn rjetthærri en þessi 15 þús. kr. styrkur til báts milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar. og ef af honum verður klipið, þá er ástæðulítið að halda hinum. Jeg verð því að taka þann kostinn að greiða atkv. móti þeim.

Jeg vil ekki tefja tímann með því að tala um fleiri brtt.; mjer þykir rjettast að láta atkv. mitt tala fyrir mig um þær.