13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get verið skammorður, þar sem jeg hefi ekki í huga að taka fyrir alla liði af brtt. fjvn. Jeg verð að taka undir það með frsm. (M. P.), að mjer þykir hafa komið allmiklar breytingar inn við þessa umr. Og mjer þykir nefndin ekki hafa sýnt þá sparsemi, sem jeg hafði búist við, þótt það auðvitað bæti nokkuð úr, að frsm. (M. P.) sagði litlar breytingar koma fram við fjárlagafrumvarpið sjálft.

Jeg vil þá fyrst nefna vitana. Jeg skal viðurkenna, að eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá virðist ekkert undanfæri að byggja vitann í Sandgerði. En ekki virðist eins nauðsynlegt að byggja hina tvo vitana. Þessum vitum er, eftir þeim upplýsingum, sem fengnar eru, ekki svo aftur farið, að ekki megi una við þær till., sem gerðar eru um þá í fjárlögunum. Og jeg get skilið það, að hv. 1. þm. S.-M.( Sv. Ó.) sje óánægður yfir því, að hjer sje skotið inn vitum á undan vitunum á Austurlandi, sem byggja átti á þessu ári, en sem stjórnin hefir frestað. Jeg fæ ekki sjeð, að neitt sje leggjandi upp úr þeim sparnaði, sem við það fengist, að þeir vitar, sem bygðir væru í einu, væru sem næstir hver öðrum. Jeg skal viðurkenna, að því er Gjögurvitann snertir, að nokkur flutningskostnaðnr gæti sparast, en þó afskaplega lítill. Þangað má senda efni með strandferðaskipunum. svo alls ekki þyrfti að senda sjerstakt skip. Og það er sanngjörn krafa, að úr því að vitarnir á Austurlandi eru teknir í fjárlögin fyrir 1921, þá sje því haldið til streitu, að úr því að hinir vitarnir eru teknir, þá sjeu þessir vitar teknir um leið. En þá yrði að taka lán, sem stjórnin vill helst ekki, eða sleppa ölum vitum á þessu ári.

Mjer skilst líka, að aðalástæðan fyrir því að byggja Arnarnesvitann sje sú, að vitavörður segi af sjer 1. ágúst, og að erfitt sje að útvega annan í staðinn. Þetta virðist mjer hæpið að byggja á, svo og þeirri ástæðu, að menn halda að viðirnir í húsunum sjeu fúnir.

Elliðaeyjarvitinn er að vísu ekki „moderne“, en má þó notast við hann: og það er rjettara að byggja fyrst vita fyrir austan, þar sem alls engir vitar eru.

Yfirleitt virðist hyggilegra að bíða.

Mjer kemur það líka undarlega fyrir sjónir, að vitavörðurinn á Arnarnesi á að fá dýrtíðaruppbót fyrir alt árið 1921, þótt hann hafi ekki sagt af sjer og segist ekki ætla að gera það fyrir 1. ág. þ. á. Er þetta dálítill mælikvarði á sparnað háttv. fjárveitinganefndar.

Um dýrtíðaruppbótina til háskólaritara vil jeg taka það fram, að það er ekki rjett, að háttv. nefnd byggi þar till. sínar á stj. frv., því að þar er ekki ætlast til, að uppbótin gildi fyrir liðna tímann, því að stjórnin bjóst eigi við því, að nefndin mundi vilja breyta fyrri gerðum sínum.

Um dýrtíðaruppbótina til Einars Jónssonar skal jeg geta þess, að hjer getur eigi verið um annað að ræða en að þessi uppbót sje greidd á listamannastyrkinn, sem honum er veittur. Er hjer gengið inn á alveg nýja braut, og að því er jeg held talsvert útgjaldamikla, og því mjög viðsjárverða, þar sem bæði á að veita uppbót á styrkinn og einnig að veita þeim, sem listamannanefndin mælir ekki með styrk, með því að taka styrkveitingar til þeirra í fjáraukalögin.

En í sambandi við vitana, svo að jeg hverfi að þeim aftur, skal jeg geta þess, að mjer þykir dálítið einkennilegt, hvernig háttv. fjvn. tekur í það að veita fje til bryggjunnar á Blönduósi, sbr. tilmæli hennar um veitingu á fje til vitanna. Miðpartur bryggjunnar er farinn, og því auðsætt, að hún er öll í voða, ef eigi er að gert. Sýnist því liggja næst að halda því við, sem þegar hefir verið gert og miklu kostað til.

Um brtt. mína á þskj. 283 skal jeg vera fáorður. Háttv. nefnd hefir lýst því yfir, að hún muni fallast á 2. og 3. till., en verða mótfallin þeirri 1. Háttv. frsm. (M. P.) ávítaði stjórnina vegna nefndarinnar fyrir, að hún skyldi eigi greiða alt, sem í fjárlögunum stendur. Eftir því álítur nefndin víst, að stjórninni beri skylda til að greiða fje út til erfingjanna eða jafnvel skuldheimtumanna, ef maðurinn deyr, sem fjárveitingin er nafnbundin við. En nú vil jeg láta háttv. deild skera úr því, hvort hún vill láta greiða út fje, sem veitt er manni til ákveðins starfs, en sem tekur svo að sjer önnur störf, svo umfangsmikil, að manninum er ófært að inna starf sitt af hendi. Þessi maður hefir nú fengið talsvert útborgað af styrknum, og sýnist mjer nægilegt að láta þar við sitja.

Um styrkveitinguna til Guðmundar frá Sörlastöðum vil jeg geta þess, að óþarfi var að taka hana nokkuð til umr. hjer, því að jeg hefi oft sagt honum, að hann hjeldi styrknum, enda mun það ætíð hafa verið venjan að fella ekki fjárveitingu niður, þó að líkt stæði á og hjer.

Þá spurði háttv. frsm. stjórnina. hvort fresta ætti framkvæmdum mannvirkja þetta ár, sem þó hefir verið veitt fje til í fjárlögum. Þetta er ekki fullráðið enn, en hefir komið til orða. Eru eigi nema tveir kostir, og hvorugur góður, annaðhvort að taka lán til þess eða fresta, og hygg jeg, að það síðara sje hyggilegra, þar sem von er nú til, að eitthvað fari að rætast úr. (M. P.: En þarf stjórnin eigi að biðja þingið um álit sitt í þessu efni?). Má vera, að hún þurfi þess um sumar framkvæmdirnar, en þó er þess hjer að gæta, að til margra mannvirkja, svo sem bygginga og brúarsmíða, er ekki nein fastákveðin upphæð veitt í fjárlögunum, og þar hefir því stjórnin óbundnar hendur. en enda þótt svo sje eigi, þá sýnist mjer, að stjórnin hafi heimild til þess að fara að sem hygginn ráðsmaður, og greiða ekki fjeð út, þó að fjárveiting standi í fjárlögunum, ef forsendurnar eru brostnar, sem veiting þingsins bygðist á.

Um eftirlaunin til Sigurðar Jónssonar, sem mörgum verður þungt fyrir brjósti af, vil jeg geta þess, að þar fór stjórnin eftir yfirlýstum vilja meiri hl. háttv. þm. og þar með fjvn. beggja deilda. Annars held jeg, að óþarft sje að öfundast svo mjög yfir þessu, því að annar ráðherra, sem fór frá jafnhliða honum, hefir sömu eftirlaun. Þarf þetta ekki að verða neitt fordæmi, en annars skulu háttv. þm. ekki láta það neitt fá á sig eða aftra sjer, þótt búið sje að greiða manninum nokkuð út, því að þeir, sem það hafa gert, eru fyllilega borgunarmenn fyrir þessari upphæð úr sínum vasa.

Meira held jeg að jeg þurfi eigi að taka fram að sinni, en sökum þess, að jeg verð að vera við umr. í Ed. í dag, og get því eigi verið hjer að staðaldri, þá þætti mjer vænt um, að mjer væri gert viðvart, ef umr. snertu það, sem mjer við kemur sjerstaklega, eða það sem jeg nú hefi sagt.