13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Auðunn Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um vitabyggingarnar. Hann sagði í því sambandi, að ekki ætti að byrja á því að endurbyggja vita, meðan ekki væri fært að framkvæma ráðgerðar nýbyggingar.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) virðist því ætlast til, að eldri vitar verði ekki endurbættir, hversu brýn nauðsyn sem á því er, fyr en búið er að reisa alla vita, sem í náinni framtíð er fyrirhugað að reisa. Hann verður þó að gæta þess, að hættulegra er fyrir sjófarendur, að eldri vitar ónýtist en hitt, að bygging nýrra vita frestist.

Viðvíkjandi Arnarnesvitanum vil jeg geta þess, að hann er svo illa á sig kominn og hrörlegur, að full hætta er á, að hann skekkist í vondum veðrum; þrátt fyrir sjerstaka alúð vitavarðarins í starfi sínu og stöðugt eftirlit allan þann tíma, sem á vitanum á að loga, hefir þó borið á því, að vitinn hefir ekki sýnt eins gott ljós og til er ætlast og hann gerði áður. Ef vitanum verður ekki breytt til batnaðar, þá er miklu betra að leggja hann niður. En með endurbyggingu mætti gera hann þannig úr garði, að árlegur kostnaður við hann yrði að verulegum mun minni, sjerstaklega hvað snertir mannahaldið, svo að kostnaðurinn við endurbygginguna mundi fljótt borga sig, bæði beinlínis og óbeinlínis.

Þá er það Elliðaeyjarvitinn á Breiðafirði. Það hafa komið fram eindregnar óskir um að fá leiðarvísi í Höskuldsey, og jeg álít það ómissandi og þoli alls enga bið. En með því að endurbyggja Elliðaeyjarvitann verður komist hjá því að byggja leiðarljósið á Höskuldsey, og þar sem vitinn á Elliðaey þarfnast mjög mikilla endurbóta, og það í allra nánustu framtíð, er sjálfsagt að endurbyggja hann nú, því að það verður áreiðanlega sparnaður. Fyrst af því, að við það hverfur algerlega þörfin fyrir leiðarljós á Höskuldsey, sem yrði dýrt, sjerstaklega það, að launa mann til eftirlitsins, og í öðru lagi yrði starfræksla vitans í Elliðaey mun ódýrari eftir endurbygginguna en nú er hún. Jeg get því vel fallist á till. háttv. fjvn. um að endurbæta Elliðaeyjarvitann í þess stað, og gera úr honum hornvita, í stað þess, að áður hefir þar aðeins verið ljósviti. Jeg vil því mæla eindregið með till. háttv. fjvn. um þetta efni.

Ef Arnarnesvitinn verður ekki endurbygður, þá verður vitavörðurinn að vera í vitanum ávalt meðan á vitanum logar, en ef það yrði gert, mætti komast af með að láta mann koma þangað einu sinni eða tvisvar á dag. Vitinn yrði bæði í mannhaldi og öðrum rekstrarkostnaði helmingi ódýrari, og auk þess ábyggilegri.

Jeg neita því ekki, að brýn þörf sje á endurbótum á Austurlandi. En hjer er svo brýn þörf, að hún þolir enga bið.

Viðvíkjandi utanfararstyrknum til blindu stúlkunnar, þá skal jeg skýra frá því, að faðir stúlkunnar er bláfátækur og hefir við og við orðið að þiggja af sveit, vegna þess, að hann hefir 9 börn fram að færa, og sjer sjer því alls ekki fært að kosta stúlkuna. Jeg vil því mæla mjög eindregið með þessum styrk. Jeg ætla ekki að rekja fleiri till. hv. fjv., en læt nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr.

Vegna þess, að háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) var að bera styrkinn til Hornafjarðarbátsins saman við styrkinn til bátsferða um Ísafjarðardjúp, þá vil jeg benda hv. samgmn. á það, að styrkurinn til bátaferða á Ísafjarðardjúpi er í rauninni hlægilega lítill. Það stendur til, og hefir staðið til, að láta bátinn hætta að annast póstflutninga um Djúpið, vegna þess hvað styrkurinn er lítill. Það mundi sýna sig, ef ríkið eða póststjórnin ætti að kosta póstflutninga um Djúpið sjerstaklega, að sá kostnaður yrði ekki minni en þessi styrkur. Út af orðum háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) vil jeg geta þess, að jeg skil ekki, að Austur-Skaftfellingar verði ekki svo sanngjarnir að gera sitt til þess, að Sunnmýlingar geti haft sem mest not af Hornafjarðarbátnum þar austur frá. Viðvíkjandi því, sem hann sagði, að styrkurinn yrði að vera svo hár, að báturinn gæti sótt vörur í landsverslunina á Seyðisfirði, þá skil jeg ekki, að það sje betra fyrir þá að fá þær þaðan heldur en beint frá Reykjavík með Suðurlandi.