13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend nú í sjálfu sjer ekki upp af því, að svo margt hafi í milli borið mín og háttv. fjvn., heldur einkum til þess að gera nánari grein fyrir málum, sem jeg hefi áður drepið hjer á, sem sje vitamálunum. Jeg hefi hlustað bæði á skýrslu stjórnarinnar og ræðu háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), og finst sem heilmargt beri þar á milli. Jeg gat sem sje ekki skilið annað á ræðu hæstv. ráðh. (P. J.) en að engin knýjandi nauðsyn væri á endurbyggingu vita vestanlands, þótt æskilegt væri að koma vitunum þar í nýtískuhorf. Hinsvegar lýsti háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) þessum vitum svo átakanlega, að hann sagði það vaka yrði yfir þeim nótt með nýtum degi, svo ekki fykju þeir út í hafsauga, svo væru þeir ljelegir orðnir og illa komnir á alla lund. Um aldurinn er það annars að segja, að þeir munu bygðir nokkru eftir síðustu aldamót, og því jafnstæðilegir og aðrir vitar frá þeim tíma; en yfirleitt munu þeir stæðilegir og ekki þörf að endurbyggja þá. En þetta er þó ekki aðalatriði málsins, heldur hitt, að Vestfirðir eru hlutfallslega vel settir með vita, að minsta kosti saman borið við Austfirði, sem hafa til þessa altaf verið látnir sitja á hakanum í framkvæmdum þessara mála, og eru því verst komnir allra landsfjórðunga um þessa hluti. Frá Langanesi til Ingólfshöfða er í raun rjettri aðeins einn viti, sem teljandi er, Dalatangaviti, þegar frá eru taldir tveir eða þrír innsiglingavitar. Er þetta því merkilegra og óafsakanlegra, sem það er kunnugt, að siglingaleið er þarna mjög varasöm og vindfarin, við suðausturhorn landsins, sakir þoku og grunnsævis í námunda við Papey, en þetta svæði á leið aðalsiglinganna frá Evrópu til Austur- og Norðurlands og aðalstrandferðanna. Þar við bætist svo, að þessum oftnefndu vitabyggingum á Austfjörðum hefir verið marglofað og hátíðlega, en engar efndir á orðið. Og svo virðist eiga að vera enn. Og nú kemur því spánný upplýsing um ástæðuna fyrir drættinum, sem sje, að kostnaður, sem áður var ráðgerður 50–60 þús., sje nú kominn upp í 150 þús. Jeg þekki nú ekki til þess, að verðlag hafi hækkað svona gífurlega frá 1919. þegar áætlunin var gerð, en samt hefði jeg ekki gert mjer rellu út af því, þó að byggingunum hefði verið frestað eitthvað eystra vegna ástandsins og dýrtíðarinnar, ef ekki hefði jafnframt komið í ljós, að það væru aðeins Austfirðir, sem afleiðingar þessara erfiðleika ættu að bitna á. Af þessari nýuppteknu fjárveitingu hjer, til endurbyggingar á Arnarnessvita og Elliðaeyjarvita, er sem sje bersýnilegt, að taka á fjeð, sem ætlað var Austfjarðavitunum í fyrra og í ár, og verja því til vitabygginga vestra.

Það er því síður en svo, að jeg geti verið fjvn. og stjórninni þakklátur fyrir afskiftin af þessu máli, og get jeg fullvissað hæstv. stjórn um það, að jeg man þetta lengur en til morguns. Jeg endurtek það, sem jeg áður hefi sagt, að hjer er um að ræða óafsakanlega vanrækslu um vitabyggingar, sem löngu eru lögákveðnar á hættulegasta siglingasvæði við landið, svæði, sem oft hefir reynst hættulegt. Á því liggur norðast og austast á Papeyjargrynningum Geirfuglasker, eða Hvalsbakur, langt undan landi, en umhverfis hann ætla margir þann kirkjugarð hafsins, sem geymir skip þau, er fyr og síðar hafa horfið eða týnst á þessari siglingaleið, en þau eru ekki allfá á þeim tíma, sem jeg man.

Svo verð jeg að snúa mjer að brtt. háttv. samgmn., sem jeg hefi áður vikið að, sem sje um samgöngumar fyrir Austurog Norðurlandi. Jeg verð að endurtaka það og undirstrika, að einmitt á Austfjörðum er hvað mest þörf á greiðum og góðum samgöngum á sjó fjarða á milli, vegna þess, hve landsamgöngurnar eru slæmar, og svo gott sem engir færir vegir þar á landi. Jeg hefi áður bent á það, að hve litlu liði. tiltölulega, þessar margnefndu Goðafossferðir koma, og get því nú látið mjer nægja að minna á það, að gengið er þarna alveg fram hjá að minsta kosti fjórum sjálfsögðum höfnum: Berufirði. Stöðvarfirði. Breiðdalsvík og Mjóafirði. Sumar þessara hafna mega heita útilokaðar frá öllum samgöngum, vegna landslagsins. Um enga þessa höfn verður sagt, að hún sje lakari öðrum höfnum, sem sambönd hafa með Goðafossi, og sumar þeirra, Mjóifjörður að minsta kosti, með bestu höfnum á landinu og auðteknustu.

Að öðru leyti verð jeg að vísa til fyrri ræðu minnar um þessi atriði, en endurtek það, að mjer virðist hvorug þessara nefnda. samgöngumála eða fjárveitinga. eiga þakkir skyldar fyrir frammistöðu sína, enda mun jeg sýna það við atkvgr.