13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get svarað háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) strax, úr því að hæstvirtur forseti hefir veitt mjer orðið. Jeg er að vona, að umræddur kostnaður við móttöku hans hátignar konungsins fari ekki mjög mikið fram úr því, sem gert er ráð fyrir í fjáraukalögunum. Það er þegar búið að greiða allmikið í þessu skyni, en hægt mun verða að selja fyrir allmikið fje aftur. Jeg geri mjer von um, að svo mikið komi inn fyrir sölu ýmsra muna og áhalda, sem keypt verður í þessu skyni, að móttökukostnaðurinn fari ekki mjög fram úr áætlun fjáraukalaganna. Jeg býst ekki við, að háttv. þm. amist við þessum litla styrk, sem settur er í sömu gr. og kostnaðurinn við konungsmóttökuna (J. H.: Nei, alls ekki, það var aðeins samræmið). og orðlengi því ekki um hann.