13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. (J. M.) óskaði, að þm. ljetu ekki afstöðu sína til núverandi stjórnar hafa áhrif á atkvgr. þeirra um eftirlaun Sigurðar Jónssonar. Fyrir mjer vakir nú ekki annað en það, að jeg vil ekki láta Alþingi ganga út á eftirlaunabrautina aftur, þegar einu sinni hefir verið af henni gengið. Jeg væri ekki frá því að veita þessum heiðursmanni heiðurslaun, ekki sem ráðherra, heldur sem dugandi manni, og að því lýtur varatill. mín. Jeg get illa skilið, að stjórnin megi greiða fje út, án þess að Alþingi hafi samþ., því að jeg skoða það enga samþykt, þótt einhver flokksbrot kunni að hafa gefið stjórninni einhver loforð í þessa átt.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) ljet um mælt um öfundina, í sambandi við þessa tillögu, þá vil jeg aðeins segja það, að hún er ekki sprottin af öfund. Jeg öfunda ekki fyrverandi ráðherra, núverandi ráðherra nje tilvonandi ráðherra af launum þeirra, tilvonandi eftirlaunum. heiðurslaunum nje öðrum bitlingum þeirra.