13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson:

Jeg vil taka það fram gagnvart ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), að hjer er alls ekki að ræða um borgun á starfa, heldur hitt, hvort maður, sem hefir svo mikla skylduvinnu á hendi sem íslenskukennarinn við Mentaskólann, sje fær um að bæta á sig þessu starfi. Það er þetta, sem stjórnin átti að sanna, úr því hún hreyfir hjer þeim andmælum, að slíkt væri ókleift. — En nú hefir hitt einmitt verið sannað, að maðurinn getur unnið þetta, eins og Geir Zoega áður.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), vil jeg benda á það, að hjer stendur öðruvísi á en um fjárveitingu til vegagerða, þar sem þeir, er fyrir verki standa, bíða venjulega lítið tjón, hvernig sem fer um framkvæmdir verksins. Það er hjer að ræða um fjárveitingu til nafngreinds manns, og jeg man ekki til þess, að það hafi nokkurntíma heyrst, að stjórn hafi neitað að greiða manni þau laun, sem honum hafa verið veitt eftir fjárlögunum, nema maðurinn hafi verið dáinn — eða þá kominn til furðustranda — þangað, sem enginn póstvegur er ennþá lagður. Þetta hefði þó verið sök sjer, ef háttv. stjórn gæti sannað, að maðurinn hafi reynst óhæfur til þess að vinna verkið, en nú er því ekki til að dreifa. Það er þvert á móti hægt að sanna, að hann hefir unnið sitt verk, og þó í engu vanrækt kenslustarfið.

Það hefur annars dálítið undarlega í eyrum, er því er haldið fram, að það sje voðalegt starf að kenna íslensku við Mentaskólann. Jeg skal að vísu játa, að það tekur talsverðan tíma að fara í gegnum stílana. En jeg verð þó að telja það talsvert ljettara verk að leiðrjetta íslenska stíla en latneska. Nú er það kunnugt, að Jón heitinn Þorkelsson hafði latínukensluna á hendi í þessum skóla, og vann þó margt þrekvirkið aukreitis í þarfir þjóðarinnar, og hví má þá ekki ætla öðrum að leysa af hendi ljettara starf?

Auk þessa er hjer ekki um að ræða neitt óþarfabruðl. Þessi maður hefir fulla þörf á styrknum, meðan embætti hans er ekki betur launað, en allar nauðsynjar í svo háu verði. — Og að því er snertir orð hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að jeg væri hjer ekki sjálfum mjer samkvæmur, þar eð jeg hefði jafnan haldið því fram, að kennarar þyrftu öðrum fremur að eiga góða daga og njóta nægilegrar hvíldar, þá er þar um algerðan misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh. (M. G.). Jeg hefi í engu breytt skoðun í því efni, en hinu held jeg fram, að ef kennari er knúður til að bæta á sig einhverju aukastarfi, þá er honum hægra og hollara að vinna að einhverju, sem er honum áhugamál og nákomið aðalstarfi hans, heldur en öðru, sem er því óskylt, enda vænlegra að verk hans komi þá að fyllri notum.

Annars finst mjer, að það þurfi talsverða einurð til þess að halda því fram hjer á Alþingi, að stjórnin geti leyft sjer að breyta fjárlögunum, og það þótt frambærilegri ástæður væri til en nú er. Mjer hefir ávalt fundist það vera ríkt í huga flestra þm., að fjárveitingavaldið mættu þeir aldrei af hendi láta. Og einmitt með þetta fyrir augum hefir fjárlagatímabilið verið stytt um helming, og þing nú haldið á hverju ári. Mjer þætti því fremur illa við eigandi að byrja nú á því, á þessu þingi, að þola stjórninni að fella niður ákvæði í fjárlögunum. Það má vera, að þetta gæti ekki talist svo vítavert, ef stjórnin hefði samið um þetta atriði við manninn. og hann fallist á að fella burt styrkinn. En úr því að háttv. stjórn hefir ekki gert þetta, og unt er annars vegar að sanna, að maðurinn hefir ekki einasta unnið verk sitt, heldur unnið það vel, þá ber honum það fje með fullum rjetti, enda myndi hver einasti dómstóll dæma svo.

Um vitana þarf jeg ekki að vera langorður, því að háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir fært fram nægileg rök fyrir nauðsyn þess máls. Eins og menn vita, þá er mjög skerjótt út frá Búlandshöfða, og vant að vita, hvenær skip, er kemur utan flóann eða frá Ólafsvík. er hæfilega norðarlega, og þó á leið sunnan Elliðaeyjar, og innsigling afartorveld, enda hafa skip oft komist þar í krappan dans, og þótt enn hafi eigi orðið manntjón af, þá getur slíkt komið fyrir hvenær sem er. Kostnaðurinn verður heldur ekki svo ýkjamikill, því að með því að endurbæta Elliðaeyjarvitann nægilega, er hægt að komast hjá að reisa vita í Höskuldsey, sem ella væri nauðsynlegt. Jeg vænti þess, að enginn verði til að mótmæla því, að þetta sje gert, og gert sem fyrst, því að það er búið að dragast helst til lengi, og aldrei að vita, hvenær af getur hlotist nýtt manntjón, ef ekki verður að gert hið bráðasta.

Það er annars ýmislegt fleira, sem jeg hefði gjarnan viljað láta skoðun mína í ljósi um, en þar eð umræður eru þegar orðnar fulllangar, get jeg látið lenda við þetta. Jeg vildi aðeins ekki láta ómótmælt orð háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), en hann er nú safnaður til sinna feðra, og sje jeg því ekki ástæðu til að hlaða frekar að höfði hans og stjórnarinnar að þessu sinni.