13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jakob Möller:

Mjer finst rjett að geta þess um stofnun prófessorsembættis, Guðmundar Finnbogasonar, að þá var öðru máli að gegna en um orðabókarstarf Jakobs Smára. í sambandi við kennaraembætti hans. Guðmundur Finnbogason hjelt áfram sama starfinu í prófessorsembættinu sem hann hafði áður haft styrk til í fjárlögunum. Það var því eðlilegt og sjálfsagt, að fjárlagastyrkurinn fjelli niður, þegar embættið var stofnað, þar eð ella hefði hann fengið tvöföld laun fyrir sama verkið.

Það horfir alt öðruvísi við, þegar manni er veitt alt önnur staða en sú, sem hann hefir verið launaður fyrir í fjárlögunum; ef hann getur unnið áfram að því starfi, auk embættisstarfa sinna, þá er sjálfsagt, að hann fái sjerstaka borgun fyrir það. Ef orðabókarstarf Jakobs Smára hefði verið gert að sjerstöku embætti, sem honum hefði síðan verið veitt. væri alt öðru máli að gegna. og kæmi þá auðvitað ekki til mála, að hann hjeldi fjárlagastyrknum.