26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Karl Einarsson:

Jeg skal reyna að verða eins stuttorður og frekast er unt. Háttv. frsm. (S. H. K.) hafði þau ummæli, að jeg hefði talið till. nefndarinnar hálfgert smánarboð. Háttv. þingmaður hefir þar algerlega misskilið orð mín. Það, sem jeg sagði, var aðeins það, að mjer og háttv. nefnd bæri svo lítið á milli, að vart væri lengi um það deilandi, þar sem annars vegar væri um nauðsynjamál að ræða. Því verður ekki á móti mælt, að útgerð þessa skips er til afarmikils gagns, ekki einasta fyrir Vestmannaeyjar, heldur fyrir alt landið, og jeg held því fram, að ekki sje hyggilegt að horfa í smáfjárhæðir, þegar um það er að ræða að gera borgurum þessa ríkis lífvænt í landinu.

Jeg hefi áður tekið það fram, að það dugi ekki að vera að draga af styrknum, ef hann á annað borð á að koma að fullum notum, enda munar ríkið það ekki svo miklu. — Hvort, aftur á móti, Vestmannaeyinga munar um þessar 20.000 kr. verður framtíðin að skera úr. En því lofa jeg að gera alt það, sem í mínu valdi stendur, til þess að haldið verði áfram að gera út skipið, ef allur styrkurinn verður veittur.

Að þessi till. kom fram í Ed., stafar af alt öðru en því, sem háttv. frsm. (S. H. K.) gat sjer til. Orsökin var sú, að ekki voru komnir fram í tíma þeir reikningar og reikningsáætlanir, er þurftu.

Jeg ætla svo ekki að fara frekar út í þetta mál að sinni. Jeg vildi aðeins taka það fram, að það var misskilningur, að jeg hefði nokkurntíma talað um smánarboð, heldur hitt, að óhyggilegt væri að skera fjárveitinguna svo við neglur sjer, að hún kæmi ekki að gagni. Annars vonast jeg eftir svo mikilli víðsýni hjá háttv. þingmönnum, að þessi upphæð verði veitt óskoruð.

Viðvíkjandi styrkveitingunni til þessara embættismanna, skal jeg geta þess, að þar kendi einnig misskilnings hjá hv. frsm. (S. H. K.) á orðum mínum. Jeg er samdóma hæstv. forsrh. (J. M.) í því, að erfitt geti orðið að fá kandídata til þess að þjóna þessum embættum, nema full laun komi fyrir, enda tek orð hans í þessu alveg trúanleg. — Annars hafði jeg ekki vænst þess, að orð mín yrðu skilin svo, sem kendi kulda í garð þessara manna, og kom það aðeins fram hjá háttv. frsm. (S. H. K.).

Jeg vil ekki orðlengja þetta frekar, en lýk máli mínu með því, að jeg vonast fastlega til, að veittar verði þessar 50000 kr. til Þórs, og skal aftur lofa því á móti, að skipið skuli starfa næsta ár.