26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sigurður Eggerz:

Það var brtt. við 10. gr., sem jeg vildi aðeins minnast lítið eitt á. í henni er gerð sú krafa, að sýslumaðurinn útvegi ábyrgð sýslunefndanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum sem trygging fyrir láninu. Jeg er á móti því ákvæði, þar eð jeg tel sýslumanni vera komið í talsverðan vanda með því að krefjast þess af honum, að hann fari bónarveg að sýslunefndarmönnum í þessu efni. Er það mjög óþægilegt fyrir oddvita nefnda að þurfa að biðja þær um annað eins og þetta. Vona jeg, að háttv. deild taki þetta til greina og leysi sýslumann undan þeim vanda.

Að því er snertir styrkinn til þessara embættismanna, þá skal jeg geta þess, að mjer er kunnugt um, að einum þeirra, Ara Arnalds bæjarfógeta á Seyðisfirði, verður ókleift að fara utan, ef hann verður ekki styrktur. Jeg veit það einnig, að þessi maður hefir verið mjög þungt haldinn, og er veikur enn, og að eina vonin til þess að hann nái heilsu aftur er sú, að hann sigli. Þessum manni er það því hrein og bein lífsnauðsyn að fá styrkinn, og vona jeg, að háttv. deild líti á það eins og ber.

Jeg vil svo þakka hæstv. fjrh. (M. G.) fyrir upplýsingarnar, sem hann gaf mjer um húsasmíðarnar við Geysi. Jeg skal játa það, að það er ekki nein ýkjaupphæð, sem hjer er um að ræða, þessar 20.000 kr. En hitt er jafnvíst, að þótt sá kostnaður væri ekki mikill, þá var hann samt algerlega óþarfur, en ríkissjóður ekki svo auðugur, að það hefði ekki mátt koma því fje einhversstaðar fyrir til þarfa.