19.05.1921
Sameinað þing: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Kosningakæra frá Ísafirði

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi skrifað undir með fyrirvara, og hið sama hafa þeir gert háttv. þm. Ak. (M. K.) og háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.). Fyrirvari okkar þýðir ekki það, að við sjeum að efninu til ósamþykkir meðnefndarmönnum okkar, því við neitum því ekki, að það, sem stendur í skýrslunni, sje rjett. En við erum þeirrar skoðunar, að ekki sje rjett af þinginu að fara enn að vasast í þessu máli. Jeg vil engu spá um, hvernig ný rannsókn mundi enda, en við, sem til þekkjum, vitum, að mjög er vafasamt, hvort þeir, sem borið hafa fram kæruna, hafi hreinni hendur en hinir. Jeg get tekið undir það, sem hv. frsm. (Gunn. S.) sagði, að það er ljótur siður að ganga um og heita peningum, ef einhver viss maður kemst að, en mikið spursmál er, hvort því verður hætt nokkuð fremur fyrir því, þótt þetta mál verði rannsakað nánar. Auk þess er eins líklegt, að ekkert frekar sannist í málinu við nýja rannsókn. Þegar á alt er litið, er því mikið spursmál, hvort borgar sig að rekast meira í þessu máli.