30.04.1921
Efri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. samgmn. (Halldór Steinsson):

Það eru aðeins örfá orð, fyrir hönd samgöngumálanefndar, sem jeg vildi segja. Hún hefir leyft sjer að koma fram með tvær litlar brtt. — Hin fyrri er um alt að 1000 kr. styrk til Grímseyinga, til mótorbátaferða milli Grímseyjar og lands árið 1921. Þeir hafa notið góðs af bát, sem haldið var úti til ferða fyrir Norðurlandi og styrktur af ríkisfje. En nú eru þessar ferðir lagðar niður, og þeir verða því hart úti. Nefndin hefir því lagt það til, að þeim yrði veittur þessi styrkur eftir tillögum sýslunefndarinnar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, svo þeir gætu ráðið sjálfir, hvort þeir fara heldur til Eyjafjarðar eða Húsavíkur.

Síðari brtt. nefndarinnar er um alt að 2500 kr. styrk til mannflutningaferða milli Borgarness og Reykjavíkur á hentugum tímum. Nú borgar ríkissjóður 20 þús. kr. til póstflutninga milli Reykjavíkur og Borgarness, fyrir 30 ferðir. — Flutningsþörfin er mjög mikil, ekki einungis fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, heldur líka fyrir Norður- og Vesturland, og mismunandi á hinum ýmsu tímum árs. Mest er hún venjulega síðast í maí og fyrst í júní, og síðast í september og fyrst í október, því að þá streymir fólk að og frá Reykjavík — kaupafólk, námsfólk og fleira. — Nefndin ætlast því til, að þetta fje sje notað til þess að láta fara svo sem 4 eða 5 ferðir milli Reykjavíkur og Borgarness, þegar þörfin er mest, en hún leggur áherslu á það, að stjórnin útvegi gott fólksflutningaskip til þess að fara þessar ferðir.

Það er svo eigi fleira, sem jeg þarf að segja, ef eigi koma nein andmæli fram á móti þessum tillögum.