06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Guðmundsson:

Mjer þykir það næsta undarlegt, hversu deildarmönnum virðist liggja í ljettu rúmi, hvernig farið er með fjármál landsins. Nú eru margir stólar auðir, og þó slíkt stórmál sem þetta til umræðu. Jeg ætla nú. ekki að fara að halda stóra fjármálaræðu, heldur ræða um eina brtt., sem fyrir liggur. Eins og háttv. deildarmenn muna, fengum við þingmenn Árnesinga samþyktan 12000 kr. styrk hjer í deildinni til bátaferða milli Reykjavíkur og Árnessýslu, en þessu hefir verið breytt í Ed. Mjer virðist það næsta óskiljanlegt af háttv. fjvn. Ed., að henni skyldi hafa verið svo mislagðar hendur að færa styrk þennan úr 12000 kr. niður í 5000. En aftur á móti lætur nefndin sjást eftir sig nýjan lið, sem er 6000 kr. hækkun á ráðherralaunum fyrir yfirstandandi ár, þrátt fyrir það, þó þessi háttv. deild hafi felt þessa hækkun á launum þessum, er fjáraukalögin voru til umræðu hjer. Mjer virðist það óþarfi að vera hjer að bera í bakkafullan lækinn. Mjer virðist koma hjer fram harla einkennileg sparsemdarstefna; menn ausa því út með annari hendinni, sem þeir spara með hinni, þar sem þeir draga 7000 kr. frá þarflegum bátastyrk og kasta því til ráðherranna, sem virðast hafa nægileg laun til að lifa af.

Með þessu kemur sparnaðurinn niður, sem hann síst skyldi, á framleiðslunni. En þinginu ber frekar skylda til að hjálpa framleiðslunni en að draga úr henni. Það virðist ærið hættuleg braut, og ekki síst þegar fjárhagurinn er svo, að þingið sjer sjer ekki fært að veita neinar verulegar upphæðir til verklegra framkvæmda, að halda samt þeim upptekna hætti að styrkja alt milli himins og jarðar, ef það á að miða til andlegs þroska eða lista, eins og t. d. að veita hverjum þeim, sem um biður, styrk til utanferða, annaðhvort til að sækja andagift suður í Róm til að flatríma hugsanir sínar eða til Grikkland, að læra listir. Og loks til að læra leikfimi, sem ekki er annað en sprikl eftir vissum reglum, eins og jeg hefi áður lýst hjer á þingi. Hjer er haldin ræða á ræðu ofan um sparsemi, en síðan er veittur styrkur á styrk ofan, þegar til atkvæða kemur, styrkir, sem þjóðinni eru ekki nauðsynlegir. En í þessu er ekki snefill af samræmi og virðist vanta alla sparsemissamheldni í þinginu. Virðist sem sparsemin deyi út á vörum hvers eins, sem talar. En þetta getur ekki gengið fyrir þjóðina, að kosta fyrst og fremst skóla í landinu, síðan að veita hverjum manni, sem um biður, styrk til fullnaðarnáms. Svo þegar hann er orðinn fullnuma hefir hann ekkert að starfa. En þá gerir hann sjer hægt um vik og krefst þess, að búið sje til handa sjer nýtt embætti, og er þá ekki að furða, og jafnvel ekki svo ósanngjarnt, þó þinginu finnist, eins og oft vill verða, að maðurinn eigi nokkurn kröfurjett til þessa, ef hægt er að finna upp á einhverju, þar sem maðurinn með þessu hefir verið gerður ófær til annarar vinnu. En þetta er mjög órjettlátt gagnvart þjóðinni, sem með erfiðismunum framleiðir fjeð og leggur mikið á sig, og sjálfa sig oft í hættu. Hvar endar þetta? Það endar með því, að sveitadrengirnir heimta styrk til að læra á taðvjel, fara með orf og ljá og önnur verkfæri. Eins og sjá má í fjárlögunum 1922, er gert ráð fyrir tekjuhalla alt að 2 miljónum. Jeg sje ekki annan veg til þess að reyna að koma því lagi á, að staðist geti á tekjur og gjöld ríkissjóðs, en til þess dragi, að hið háa Alþingi neyðist til að draga úr, ekki einungis því, sem er miður nauðsynlegt, heldur og hinu, sem má telja nauðsynlegt, svo sem launum ráðinna embættismanna ríkisins. Því að það verður við landsbúið sem annan búskap, að þegar hart er í ári verður það að sníða sjer stakk eftir vexti og neita sjer og sínum um það, sem hjá verður komist. Til dæmis má taka, að þó nauðsynlegt sje að kenna börnum á heimilinu, skamtar fjárhagurinn af, svo ekki er unt að halda kennara. Eins má segja um embættismannahald, þótt nauðsynlegt sje, þegar neyðin stendur fyrir dyrum. Það hefir komið fram og verið til umræðu á þessu þingi frv., sem fór í þá átt að draga úr dýrtíðaruppbót embættismanna, og var það vel farið, en þá lýsti forsætisráðherra þeirri skoðun sinni, að lögin frá 1919 væru lögbundinn samningur, sem ekki mætti um þoka. En jeg lít öðruvísi á það, og á bágt með að trúa öðru en að eins og hið háa Alþingi hefir rjett til þess að setja lög eins hafi það leyfi til þess að fella þau úr gildi. Þetta er annar vegurinn, og sparnaðarvegur. En þá kemur hinn vegurinn og er aflavegur, og sje jeg ekki annan betri en þann, að ríkið taki í sínar hendur eitthvað af verslun landsmanna, og njóti af henni þess hags, sem kaupmenn annars hafa, þó mjer finnist það ógeðfelt, því að það gengur nokkuð nærri kaupmannastjett landsins.

Með þessu hefi jeg komist nokkuð langt frá efninu, en þetta má gjarnan sagt vera. En jeg býst við, að þetta láti ekki vel í eyrum sumra háttv. deildarmanna, en það verður ekki hjá því komist, að þegar stungið er á meinum finna sumir til. Þó jeg hafi minst á launaviðbót ráðherranna, getur ræða mín ekki haft áhrif á úrslit hennar. En jeg vona það, að þar sem þessir ráðherrar hafa fyrst og fremst 10 þúsund krónur í föst laun, og auk þess hefir að minsta kosti forsætisráðherra talsverða fúlgu frá Íslandsbanka, og hinir ráðherrarnir 3000 kr. fyrir þingmensku, án þess að missa nokkurs í, þá geti þeir menn, sem samþykkja launahækkun til þeirra, ekki með góðri samvisku felt till. mína um að hækka bátastyrkinn milli Reykjavíkur og kauptúnanna eystra.