06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Ef jeg ætti mjer eina ósk núna, mundi jeg óska þess, að háttv. deild breytti þessu frv. ekkert, því að við það mundi sparast mikið fje. En jeg þykist vita, að jeg muni ekki hitta óskastundina, og vil því segja fáein orð um sumar brtt., sem hjer liggja fyrir.

Jeg vil að sönnu gjarnan, að till. háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um laun sendiherrans í Kaupmannahöfn gangi fram, því að hún er í rauninni sjálfsögð, en samt vildi jeg fórna henni fyrir allar hinar brtt.

Háttv. frsm. (M. P.) ljet í ljós, að fjvn. háttv. Ed. mundi ekki vera mjer eða þessari háttv. deild samdóma um uppbótina til Jóh. L. L. Jóhannssonar, en þetta er ekki rjett. Jeg heyrði einmitt hv. frsm. fjvn. Ed. (S. H. K.) lýsa því yfir, að hann væri mjer samdóma í þessu atriði, og get jeg því vel unað við þessi málalok, þar sem það var aldrei tilætlun mín að spilla fyrir þessari uppbót, heldur aðeins að fá það fram, að styrkurinn til Jak. Smára skyldi ekki greiddur, og það hefi jeg fengið skýrt fram.

Háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) hjelt hjer eina af sparnaðarræðum sínum, og er það ekki nema gott og blessað, en jeg vildi að hann lifði þá líka eftir þessum sparnaðarkenningum sínum, þegar til atkvgr. kemur, en mjer finst vera misbrestur á því; það munu sum nafnaköllin sýna best.

Hann er þá ekkert órífari á bitlingana en þm. yfirleitt. Hann lagðist um daginn mjög á móti því, að veitt væri fje til þess að láta menn, eins og hann komst að orði, „læra að sprikla í útlöndum“, og jeg man ekki betur en að hann svo greiddi atkv. með fjárveitingu í þessu skyni við nafnakall rjett á eftir. Góð kenning hefir litla þýðingu, þegar henni er þannig framfylgt.

Hann sagði líka, að ríkið ætti að taka þátt í verslun, til þess að fá ágóða; en þá finst mjer að hann hefði ekki átt að vera á móti tóbakseinkasölunni, eins og hann þó var.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gerði fyrirspurn um sendimanninn á Ítalíu, hvort hann hefði sent skýrslur.

Hæstv. forsrh. (J. M.) bjóst ekki við að geta verið við og bað mig um að svara því, og fjekk mjer skjöl, er sýna, að hann hefir sent skýrslur, en þær eru ekki fyrir alla mánuðina, ekki þá síðustu. Hann hefir staðið í beinu sambandi við sendiherrann í Kaupmannahöfn, og þótti það heppilegra um ýms mál, er þurfti að ráðgast um við utanríkisstjórnina. Ennfremur hefir hann staðið í beinu sambandi við kaupmenn hjer. Honum hefir yfirleitt verið falið að gegna störfum þeim, sem konsúlar hafa með höndum, og fylgir það því að gefa skýrslur um markaðsverð og útvega markaði og greiða fyrir viðskiftum. Hann hefir sent mörg skeyti, og t. d. eitt síðast í fyrradag, um að fiskinnflutningur væri frjáls í Ítalíu frá 1. maí.