06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg ætla aðeins að svara fyrir mig. Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi mig ekki sparnaðarmann við atkvgr. En þegar maður sjer, að samþ. er hvað sem er, þá finst mjer ekki ástæða til að níðast á einstökum mönnum.

En þegar enginn getur komið sjer saman um neitt og alt er samþ. í graut og ríkissjóður tættur sundur, þá er ekki nema eðlilegt að maður slæpist inn á að veita bitlinga og gæti síns hjeraðs, að það hafi eitthvað.

Jeg vil, að almenningur og við í sameiningu spörum fje ríkissjóðs.

Jeg held að hæstv. fjrh. (M. G.) hafi greitt atkvæði með styrkveitingu, ef honum eru þær nærri, að minsta kosti var hann fús til að taka á móti hækkuninni á ráðherralaununum. Ef slík hefði verið mjer boðin, held jeg að jeg mundi ekki taka við henni, ef jeg hefði aðrar eins ástæður.

Jeg býst við, að þeir, sem eiga heima í Reykjavík, þurfi mikið fje til að lifa, og væri þá gott að fá upp í útsvarið úr landssjóði, þegar það er 3000 kr. eða meira.

Hvað snertir piltinn, sem jeg ljeði atkvæði mitt til að læra leikfimi í útlöndum, þá gerði jeg þá grein fyrir atkvæði mínu í ræðu minni þá, að jeg gæti ekki gert upp á milli hans og annara og láta hann sitja á hakanum, úr því ætti að veita öllum styrk.

Um tóbakssöluna er það að segja, að það er ekki sama, hvaða verslun ríkið rekur. Það var líka aðallega tvent, sem gerði það, að jeg gat ekki ljeð þessu frv. atkv. mitt; í fyrsta lagi, að það voru reyttar af því allar fjaðrirnar, áður en það kom í deildina, og annað, sem er meira fyrir mjer, að þetta er skaðleg vara, sem helst ætti ekki að flytjast til landsins, og síst af öllum ætti ríkissjóður að gera það og hafa tekjur af því; í því er hið mesta eitur, sem menn soga ofan í sig.