06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mig undrar það ekki, þótt háttv. 2. þm Árn. (Þorl. G.). eins og hann komst að orði, „slæpist inn á að samþykkja bitlinga“, úr því að hann heldur að menn eigi að rífa í sig ríkissjóðinn eftir vild og tæta hann sundur í milli sín. En mjer finst hann ætti ekki að þurfa að fylgja tískunni í þeim efnum.

Jeg veit ekki, hvaða styrkveitingar hann á við að jeg hafi greitt atkvæði með, er kæmu mjer nærri. Jeg hefi engum slíkum styrk greitt atkvæði, og er það algerlega ósatt mál hjá háttv. þm. Um hækkunina á launum ráðherranna hefi jeg ekkert meðmælaorð sagt og ekki greitt um hana atkvæði, enda aldrei um hana beðið. Fjvn. tók þetta upp hjá sjálfri sjer.

Annars get jeg ekki sjeð, hvernig hann ætlar að láta greiða atkv. um þessa hækkun, sjerstaklega núna, úr því hann hefir ekki komið með brtt. í þá átt; hann yrði þá að láta fella alt frv., ef hann ætlaðist til, að hún yrði feld.

0866

Jón Þorláksson: Jeg á eina sparnaðartill. á þskj. 487, um að styrkur sá, er veittur er bæjarsjóði Vestmannaeyja til að halda úti björgunarskipinu „Þór“, verði lækkaður úr 40 þús. niður í 30 þús. Það er ekki svo mjög upphæðin, sem veltur á, en það er ekki gott fordæmi, sem farið er fram a. Með liðnum er gert ráð fyrir að borga alt að helmingi útgerðarkostnaðar skipsins. Það hefir komið til mála hjer að taka skipið á leigu og hafa það á verði á fleiri stöðum, og væri það mikið betra heldur en að borga helming kostnaðar við útgerðina.

Þegar frv. var til 3. umr., þá var brtt. borin fram frá fjvn., um að veita 25 þús. kr. í þessu skyni, en hún var tekin aftur, og frv. fór hjeðan án þess nokkuð væri veitt þar í þessu skyni. Vona jeg, að fjvn. leggist ekki á móti till., þar sem jeg nefni 5 þús. kr. hærri upphæð en hennar upphaflega tillaga var. Það yrði þá í samræmi við fjvn. Ed., sem bar fram brtt., að upphæðin 1922 yrði 30 þús. kr.