06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson*):

Jeg hefi eiginlega ósköp litlu að svara háttv. deild, aðeins ofurlítið hæstv. fjrh. (M. G.), sem mælti á móti því aftur núna, er hann hafði verið á móti við 2. umr., og þá sjerstaklega vitunum.

Það var eitt, sem mjer þótti einkennilegt, er kom fram hjá hæstv. ráðherra (M. G.), að fyrst þetta væri ekki mjög aðkallandi, þá gætu þeir beðið þetta árið. En það verður þá ekki aðeins þetta ár, heldur líka næsta ár, þar sem þeir geta ekki komið þá, því að þá verða Austfjarðavitarnir bygðir.

Það er undarlegt að láta sjer detta það í hug, að ef þessir vitar verða samþyktir, þá verði að taka Austfjarðavitana út af fjárlögunum, og heimtað, að þeir verði gerðir í sumar.

Þessi deild er þegar búin að ákveða þetta með því að samþ. það, og hugsa jeg að þetta sje aðeins grýla, til að hræða deildina til að falla frá því, sem hún greiddi atkvæði með síðast er frv. var til umr. hjer í deildinni.

Hæstv. ráðherra (M. G.) fanst það nóg, sem Ed. hefði ákveðið að veita til endurreisnar prestssetrinu á Stað í Grunnavík, því að það væri hægt að byggja fyrir minna, ef bygt væri eins og áður.

En nú hefir verið ákveðið, og biskup lagt til, að bygt yrði steinhús. Það er ekki nein vegleg bygging, sem hægt yrði að byggja fyrir þessa upphæð, en hún ætti að nægja til þess, að það gæti orðið sæmilegt prestssetur. En þar sem nefndin hefir dregið 14 frá upphæðinni, þá er lækkunin mjög mikil.

Um launabæturnar til dyravarðarins við Háskólann er ekki ástæða til að etja kappi við Ed. Mjer er óhætt að segja, að það yrði aldrei kappsmál milli deildanna. Það virðist sem nefndin í Ed. hafi ekki fengið nægar upplýsingar um málið á því stigi. En ef fjvn. Nd. kemur á móti fjvn. Ed., þá mun hún aftur fást til að koma á móti þessari deild.

Hæstv. fjrh. (M. G.) vildi helst að frv. yrði ekki breytt hjer í deildinni. En jeg held, að það sjeu ekki margir deildarmenn, sem eru á þeirri skoðun, og held, að ekki verði hjá því komist að breyta því.

Jeg get nefnilega ekki skilið, að hugur háttv. deildarmanna hafi breyst svo mjög, að þeir greiði nú atkvæði á móti því, sem þeir hafa áður samþ.

Jeg gat ekki varað mig á því, að háttv. framsögumaður fjárveitinganefndar Ed. hefði tvenskonar ummæli um styrkinn til Jakobs Smára. Jeg gat ekki annað en tekið það svo, að það, sem hann sagði við fyrri umr., væri sagt fyrir nefndarinnar hönd.

Háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) þarf jeg ekki að svara; hann talaði ekkert um brtt. nefndarinnar, en mest um fjármálin og launamálin yfirleitt, en það kemur ekki mjer við á þessu stigi málsins.

Það var alveg rjett, sem hv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) gat um, að till. um „Þór“ var tekin aftur við 3. umr. frv., en það var fyrir þá sök, að það upplýstist, að sá þm. í Ed., sem till. var flutt fyrir, var óánægður með það, hvað upphæðin var lág, og bjóst við að hv. Ed. mundi setja hana talsvert upp.

Upplýstist að þm. voru óánægðir með styrkinn, þótti hann of lágur og vissu að háttv. Ed. mundi veita hærri styrk. Vildi nefndin því ekki eiga forgöngu að hækka upphæðina, ekki síst, þar sem þm. kjördæmisins (K. E.) var sjálfkjörinn til að beitast fyrir því í Ed. En ef ástæða er til að veita þessa upphæð 1922, þá er ekki ástæða til að hafa hana lægri þetta ár. Því að það má búast við að næsta ár verði minni kostnaður við að halda skipinu úti. Því væri ástæða til að hafa styrkinn hærri í fjáraukalögunum en fjárlögunum. Jeg skal svo ekki tefja tímann, en vænti þess, að háttv. deild sýni tillögum nefndarinnar sömu vinsemd og síðast.

*)Ræðan óleiðrétt af þingmanni.