06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jakob Möller:

Jeg býst nú alls ekki við því, að það takist að koma frv. óbreyttu gegnum deildina. Jeg leyfi mjer því enn að minna á loforð þessarar háttv. deildar frá í fyrra um launahækkun sendiherrans. Það skiftir ekki máli, hvernig atkvæðin fjellu þá; till. var samþykt. Það, hvernig atkvæði fjellu, breytir engu um það, að samþyktina má skoða sem loforð. Þó að ekki greiddu þá nema 12 þdm. atkv. með hækkuninni, þá var það bara af því, að 3 þm. voru fjarstaddir, sem hefðu greitt atkv. með, ef þeir hefðu verið viðstaddir. Ef þeir þm., sem atkv. greiddu, hafa gleymt, hvernig atkvæði fjellu, ættu þeir að rifja það upp fyrir sjer.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) virðist ekki gera mun á því að gera gamla vita nothæfa og því að byggja nýja vita, en hann gerir sjer ekki ljóst, að gamlir vitar bilaðir geta verið verri en enginn viti, þar sem þeir geta verið villandi, og ríður því á, að þeir komist ekki í það ástand, að tjón geti hlotist af. Jeg efast ekki um, að álit fjvn. hafi við rök að styðjast og hún hafi ekki að ástæðulausu fallist á þetta, og tel jeg illa farið, ef till. fellur. Eða er það meiningin að fresta eigi viðgerðum á gömlum vitum, þar til nýir hafa verið bygðir alstaðar þar, sem krafist er?