06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Þorláksson:

Háttv. 1. þm. S.-M. tjáði sig vera sammála brtt. minni, en kvaðst ekki mundu greiða atkv. með henni, til þess að fjáraukalögunum væri ekki flækt meira á milli deilda en orðið væri. Jeg vona, að megi skilja þetta svo, að hann muni gera þetta, ef hinar brtt., sem standa á undan minni, verða feldar. En ef þær brtt. verða samþyktar, og frv. því endursent til Ed. hvort sem er, þá vona jeg, að jeg megi skilja hann svo, að hann þá fylgi brtt. minni. Og jeg fyrir mitt leyti mundi láta mjer lynda, þótt mín brtt. fjelli, ef þá fjáraukalögin væru þar með afgreidd að fullu og öllu. En verði nú svo, að brtt. mín verði feld, bara til að forða frv. frá því að velkjast milli deilda, þá vil jeg mega líta svo á, að orðalag liðsins sje ekki neitt fordæmi fyrir því, hve mikinn hluta útgerðarkostnaðar eigi að veita í slíkum tilfellum framvegis.