06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Mig furðar á því, hversu langar umræður hafa nú orðið, og mjer þykir skrítið, að menn skuli nú halda nákvæmlega sömu ræður og við 2. umr. þessa máls; en það er þó ekki eins skrítið eins og það fyrirbrigði hjá einum háttv. þm., að hann greiddi atkvæði og mælti með einu atriði við síðustu umræðu hjer, en er gallharður á móti því núna. Þetta þykir mjer býsna einkennilegt.

Það var háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem mælti svo djarflega á móti Arnarnesvitanum, en háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) og hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) hafa lýst ástandinu þar vestra svo, að jeg hygg, að það sjeu fáir háttv. deildarmenn, sem vilja hafa það á sinni samvisku að greiða atkvæði á móti. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að ástæðurnar breyttust dag frá degi, og því væri hann nú á móti. Það kann að vera, að ástæðurnar breytist dag frá degi, en það hefir ekki borist mjer til eyrna, að þær hafi breyst svo mjög á þessum 3 vikum, sem liðnar eru síðan frv. kom til umræðu, að ástæða væri til þess að snúast svo mjög kring um sjálfan sig. Hann sagði, að það væri ekki von að ríkissjóður gæti greitt allar þessar upphæðir, nema til lántöku væri gripið. Þetta kann að vera rjett, en það er heldur ekki svo athugavert, að ríkissjóður taki lán til svo nauðsynlegra framkvæmda sem þessara. Þetta er ekki annað en það, sem góður búmaður gerir. Hann tekur hiklaust lán til þess að bjarga þakinu yfir baðstofunni sinni, ef það ætlar að hrynja ofan á hann.

Jeg kem þá snöggvast að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann hjelt nú, sömu ræðuna og hann hefir haldið þrisvar sinnum áður, að undanskilinni hvalfjörunni. Það er nú aðeins út af Stað í Grunnavík, sem jeg vildi segja nokkur orð. Það mátti skilja ræðu hans svo, að fjvn. hefði farið eftir áætlun, sem gerð hefði verið fyrir löngu síðan. Þetta er ekki rjett; einmitt vegna þess, að efni lækkaði, þá lækkaði hún styrkinn úr því, sem upphaflega var til ætlast.

Það er náttúrlega lofsverður áhugi hjá háttv. þm. að vilja ekki velkja frv. milli deilda, en það ætti ekki að hafa svo mikil áhrif á atkvgr., því að menn vita, að þótt það færi aftur til Ed., þá mundi það ekki hafa svo mikla vinnu í för með sjer fyrir þá hv. deild.

Jeg leyfi mjer að lokum að óska þess, að nafnakall fari fram um vitana, svo það sjáist í Alþt., hverjir þar hafa snúist.